Blak: Sextíu stig skoruð í annarri hrinu Þróttar gegn HK

Karlalið Þróttar lagði HK í úrvalsdeildinni í blaki um helgi, 1-3. Upphækkun þurfti í tveimur hrinum til að fá úrslit. Kvennaliðið tapaði hins vegar 3-0. Leikið var í Kópavogi.

Baráttan milli karlaliðanna byrjaði strax í fyrstu hrinu. HK byrjaði betur og var yfir 13-11 þegar Þróttur tók við sér og komst í 14-16. Þróttur missti þá forustu niður, var yfir 17-19 en missti það niður í 20-19. HK var í góðri stöðu til að klára hrinuna, 23-22 en Þróttur reyndist seigari í lokin og vann 26-28.

Önnur hrinan var æsileg enda fór svo að í henni voru skoruð 60 stig. Þróunin var svipuð framan af og þeirri fyrri. HK byrjaði betur, var yfir 11-9 en þá skoraði Þróttur fjögur stig í röð. Þróttur leiddi upp í 15-17 að HK hefndi með fjórum stigum í röð.

HK var í færi að klára hrinuna í stöðunni 24-21 en Þróttur jafnaði í 24-24. Í lokin hafði HK tvö tækifæri til að vinna hrinuna en Þróttur þrjú. Kópavogsliðið vann loks 31-29.

Þróttur var heldur lengur að snúa þriðju hrinunni en þeim fyrri en hélst á forustunni þegar hún náðist. HK var yfir 18-17 en Þróttur skoraði þá þrjú stig í röð og vann 20-25, eftir að hafa skorað síðustu fjögur stigin. Þróttur hafði síðan tökin á fjórðu hrinu og vann 21-25.

Með sigrinum komst Þróttur upp í 5. sæti. Liðið hefur 15 stig úr 11 leikjum og berst við HK og KA um fjórða sætið sem veitir rétt í umspil í efri hluta deildarinnar.

Erfiður dagur hjá kvennaliðinu


Kvennaliðið var í meiri vandræðum. Í fyrstu hrinu gerði liðið vel í að komast yfir 17-18 en HK vann þó 25-20. Í annarri hrinu áttu Norðfjarðarstelpur aldrei möguleika, HK komst strax í 10-2 og vann 25-17. Þriðja hrinan var sú besta hjá Þrótti. Liðið var yfir 16-18 en HK skoraði þá fimm stig í röð og vann loks 25-22.

Lucia Martin Carrasco og Heiðbrá Björgvinsdóttir voru atkvæðamestar hjá Þrótti. Samkvæmt tölfræðigreiningu leiksins lá munurinn milli liðanna í sóknarleiknum, HK skoraði 38 gegn 21 stigi úr smössum. Þróttur er í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig úr níu leikjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.