Blak: Stelpurnar töpuðu í oddahrinu

Kvennalið Þróttar töpuðu fyrsta leik sínum við HK í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki í Kópavogi í gærkvöldi í oddahrinu í afar sveiflukenndum leik.


Jafnræði var með liðunum í fyrstu hrinu upp í 10-11. Þróttur skoraði þá fimm stig í röð og fyrr en varði var staðan orðin 11-18. Þeirri forustu hélt Norðfjarðarliðið út hrinuna og vann hana 11-18.

HK hafði algjöra yfirburði í annarri hrinu, komst í 9-2 og síðan 19-6 en hún endaði 25-17.

Liðin skiptust þrisvar sinnum á forustunni í þriðju hrinu. HK byrjaði betur og komst í 7-3 en Þróttur snéri henni sér í hag í 8-10. Þróttur var enn yfir 11-13 en þá skoraði HK þrjú stig í röð. Jafnt var 18-18 en þá hrundi leikur Þróttar, HK skoraði fimm stig í röð og vann hrinuna loks 25-20.

Ekki blés byrlega fyrir Þrótt í byrjun fjórðu hrinu, sem liðið þurfti að vinna, en HK komst í 5-0. Þróttur svaraði með fjórum stigum í röð en HK tók þá aðra rispu og komst í 13-9.

Aftur komu fjögur stig frá Þrótti í röð sem jöfnuðu leikinn áður en liðið komst í 14-15. Jafnt var 19-19 en Þróttur skoraði þá þrjú stig í röð. Þeirri forustu hélt liðið og vann 21-25.

HK skoraði fyrstu þrjú stigin í oddahrinunni en Þróttur beit í skjaldarrendur og komst yfir 7-8. Þá hrökk allt í baklás. HK átti næstu fjögur stig og þótt Þróttur skoraði eitt komu aftur fjögur stig heimaliðsins í röð sem tryggðu 15-9 sigur.

Kvennaliðin mætast aftur í Neskaupstað á morgun. Karlaliðið, sem í gær tapaði sínum fyrsta leik, mætir HK öðru sinni á Norðfirði í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.