Blak: Tap á móti HK

Þróttur Fjarðabyggð mætti liði HK í gær í úrvalsdeild karla í blaki. Leikurinn fór fram á Digranesi og var mjög jafn þar sem liðin skiptust á stigum nær allan leikinn. Leikurinn endaði með 3-1 sigri HK.

Í fyrstu hrinu byrjaði lið HK betur og náði þriggja stiga forskoti. Lið Þróttar náði að halda vel í við HK og saxaði stöðugt á forskotið. Það var ekki nóg því forskotið tryggði HK sigur í fyrstu hrinu 25-21.

Önnur hrina byrjaði með sama hætti þar sem HK náði þriggja stiga forskoti. Lið Þróttar náði hins vegar strax að saxa á forskotið og komst yfir. Liðin skiptust á stigum og var mikil spenna þar til liði Þróttar tókst að leysa stöðuna og unnu hrinuna 22-25. Þriðja hrinan var með sama hætti hnífjöfn þar sem liðin skiptust á að taka eitt og eitt stig. Hrinan fór að lokum í upphækkun og lauk með sigri HK 26-24.

Í fjórðu hrinu var sagan önnur og HK hélt forskoti út hrinuna. Lið HK vann hrinuna 25-20 og þar með leikinn 3-1.

Eftir leikinn situr Þróttur Fjarðabyggð í 6. sæti deildarinnar með jafn mörg stig og HK í 5. sæti. Þróttur á þó einn leik til góða og geta með sigri á móti Aftureldingu um helgina komist upp í 5. sætið. Þróttur mætir Aftureldingu í Mosfellsbæ á laugardaginn.

Liðið átti að fljúga heim með morgunfluginu í dag en þegar þeir voru komnir hálfa leið til Egilsstaða sneri vélin við vegna bilunar og lenti aftur á Reykjavíkurflugvelli. Liðið mun því lenda þrisvar á Reykjavíkurflugvelli á einni viku.

 

Mynd: Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar