Blak: Tap í oddahrinu gegn HK
Þróttur Neskaupstað henti ítrekað frá sér góðri stöðu þegar liðið tapaði fyrir HK í úrvalsdeild kvenna í blaki í gærkvöldi.Leikurinn átti upphaflega að fara fram um síðustu helgi en var frestað þar sem Þróttarliðið komst ekki suður.
Þróttur fór af stað af miklum krafti og náði nokkrum sinnum átta stiga forskoti í fyrstu hrinu, síðast 8-16. HK minnkaði muninn í 18-19, Þróttur skoraði þá fimm stig í röð þannig staðan varð 18-24 en þá komu sex stig frá HK sem jafnaði 24-24. Þróttur vann eftir upphækkun 24-26.
Þróttur hafði yfirburði í annarri hrinu og vann hana 18-25. Í þriðju hrinu snérist taflið við og Þróttur sá ekki til sólar. HK skoraði fyrstu fjögur stigin en náði síðan 14-2 forskoti og kláraði hrinuna 25-7.
Liðin skiptust fimm sinnum á forustu í þriðju hrinu þar til jafnt var 16-16. Þróttur skoraði þá fimm stig í röð og komst í kjölfarið í 17-22 og var með nánast unna hrinu og þar með leik í höndunum.
Þá fór HK á skrið. Þróttur tók leikhlé í bæði stöðunni 20-22 og 22-22 en það stöðvaði ekki skriðuna því Kópavogsliðið komst í 24-22, hafandi skorað sjö stig í röð og vann 25-23.
Þar með var leikurinn jafn og oddahrina framundan. Þróttur byrjaði betur, komst í 1-5 og var yfir 5-8 en þá hrökk allt aftur í baklás. Eftir að hafa verið yfir 7-9 varð jafnt í 9-9. Þróttur tók leikhlé en framundan voru tvö stig í viðbót frá HK og staðan orðin 11-9.
Þróttur náði að jafna, bæði í 12-12 og 13-13 en HK gerði þá út um leikinn með tveimur stigum, vann hrinuna 15-13 og leikinn 3-2.
Svo virtist að þegar Þróttur væri kominn í þá stöðu að geta klárað leikinn yrðu leikmennirnir hræddir, þyrðu ekki lengur að taka áhættu og spila sinn leik af krafti. Nokkuð var um mistök í uppgjöfum í leiknum og móttakan vond í þriðju hrinu, eins og tölurnar úr henni bera með sér. Þá hjálpuðu veikindi lykilfólks ekki til.
Þróttur byrjaði árið á góðum sigri á Völsungi sem hjálpaði liðinu í átt að fjórum efstu liðunum og þar með úrslitakeppni. Úrslitin í gærkvöldi eru bakslag í áttina að því markmiði þótt Þróttur fái eitt stig út úr leiknum því HK er næst neðst í deildinni og ekki í neinni samkeppni.
Mynd: Sigga Þrúða