Blak: Þróttur á toppinn í úrvalsdeild kvenna

Þróttur er kominn í efsta sætið í úrvalsdeild kvenna eftir leiki helgarinnar og frábært gengi frá áramótum. Karlaliðið Þróttar tryggði sér sæti í undanúrslit bikarkeppninnar.


Kvennaliðið spilaði tvo leiki um helgina, gegn Fylki á föstudagskvöld og Grundarfirði á laugardag. Liðið átti ekki í neinum vandræðum með Fylki og vann leikinn 0-3 eða 10-25, 10-25 og 18-25 í leik sem tók aðeins um 50 mínútur.

Leikurinn í Grundarfirði var ögn jafnari en hann vann Þróttur 1-3 eða 15-25, 14-25, 25-19 og 15-25.

Með sigrinum komst Þróttarliðið í efsta sæti deildarinnar með 31 stig en það hefur verið á miklu skriði eftir áramót. Þróttur hefur eins stigs forskot á Aftureldingu og tveggja stiga á HK en hefur leikið leik meira.

Þróttur á eftir að heimsækja Aftureldingu fyrstu helgina í apríl. Vinnist sá leikur er möguleiki á að halda efsta sætinu sem tryggir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni, sem löngum hefur reynst dýrmætur. HK og Afturelding eiga hins vegar leiki til góða sem þau ættu að vinna.

Karlaliðið tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar með 1-3 sigri á Þrótti R./Fylki. Reykjavíkurliðið vann fyrstu hrinuna 25-22 en í kjölfarið fylgdu þrjár hrinur Þróttar, 18-25, 21-25 og 18-25.

Úrslitahelgi bikarsins verður 19. og 20. mars næstkomandi. Bæði lið Þróttar mæta þar liðum Stjörnunnar í undanúrslitum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.