Blak: Þróttur getur tryggt sig í úrslitin í kvöld

Þróttur Neskaupstað getur tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki í kvöld þegar liðið tekur á móti HK í þriðju viðureign liðanna í undanúrslitum. Þróttur vann anna leikinn á laugardag.

Þróttur hafði yfirburði í fyrsta leiknum í Neskaupstað á fimmtudag og hafði aftur örugg tök á leiknum þegar liðin mættust í Kópavogi á laugardag og vann 3-0.

Þróttur byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 0-7 í upphafi fyrstu hrinu. HK vaknaði til lífsins en munurinn minnkaði aldrei og vann Þróttur hrinuna 15-25.

Heiða Elísabet Gunnarsdóttir skoraði þrjú af síðustu fjórum stigum Þróttar beint úr uppgjöf, en hún gaf einnig upp í byrjun og sendi þá tvær beint í gólfið hjá HK.

Þróttur fór betur af stað í annarri hrinunni og komst í 4-9. HK jafnaði í 12-12 en Þróttur seig aftur fram úr og vann 17-25.

HK var yfir 5-3 í þriðju hrinu sem var annars jöfn upp í 10-10. Þá tók Þróttur á rás og breytti stöðunni í 12-21. HK svaraði þá með sex stigum í röð en Þróttur var sterkari á endasprettinum og vann hrinuna 19-25.

Paula del Olmo Gomez var stigahæst Þróttar með 14 stig en Heiða Elísabet skoraði 11.

Það lið sem fyrr vinnur þrjá leik kemst í úrslitin og hefur Þróttur sem fyrr segir unnið fyrstu tvo. Þriðji leikurinn verður í Neskaupstað og hefst kl. 20:15 í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.