Blak: Þróttur með yfirburði gegn Þrótti/Fylki

Þróttur háir harða baráttu við KA um þriðja sætið í úrvalsdeild karla í blaki. Liðið vann tvo góða sigra á sameiginlegu liði Þróttar Reykjavíkur og Fylkis í Neskaupstað um helgina.


Þróttur vann fyrri leikinn á föstudagskvöld 3-0 eða 25-8, 25-22 og 25-19 í hrinum. Heimaliðið varð samt fyrir áfalli í fyrstu hrinu þegar uppspilarinn Borja Gonzalez lenti á leikmanni gestanna undir netinu og missteig sig.

Þróttur vann líka seinni leikinn 3-0 eða 25-13, 25-13 og 25-15 í hrinum. Hinn sextán ára gamli Atli Fannar Pétursson var stigahæstur Þróttara í leiknum.

Þróttur er í fjórða sæti deildarinnar, stigi á eftir KA. Bæði lið eiga tvo leiki eftir en leikin er fjórföld umferð í deildinni.

Þróttur heimsækir Aftureldingu, sem er í fimmta sæti, eftir páska. Á sama tíma tekur KA á móti Stjörnunni sem er í öðru sæti.

Liðið sem er í fjórða sæti mætir HK í úrslitakeppninni en Kópavogsliðið heldur á Íslandsmeistaratitlinum og hefur haft yfirburði í deildinni í vetur. Liðið í þriðja sæti mætir Stjörnunni sem miðað við úrslit vetrarins ætti að teljast viðráðanlegri andstæðingur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.