Byrjendanámskeið fyrir fullorðið fólk í blaki

Æfingar fyrir fullorðið fólk sem vill læra grunnatriðin í blaki fara af stað í Neskaupstað í kvöld. Þjálfari segir að á námskeiðinu verði farið yfir grunnatriðin í íþróttinni þannig fólk verði betur búið undir að taka þátt í almennum æfingum hjá Þrótti.

„Það koma alltaf einstaklingar sem kunna ekki blak en langar til að æfa það. Það er hins vegar erfitt að mæta á æfingarnar sem eru í gangi með fólki sem kann orðið mikið ef þú kannt ekkert.

Við ætlum að vera með þetta námskeið í mánuð til að kenna grunnatriðin þannig hópurinn verði betur búinn undir að fara inn á æfingar með öðrum. Síðan tökum við stöðuna,“ segir Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir sem leiðbeinir á æfingunum.

Æft verður tvisvar í viku í íþróttahúsinu í Neskaupstað, klukkan 20:30 mánudaga og miðvikudaga út janúar. Þorbjörg segir ágæta skráningu á æfingarnar en bætir við að enn séu laus pláss fyrir þau sem séu áhugasöm. Hún segir um fjölbreyttan hóp að ræða. Meðal skráðra er aðflutt fólk sem vill komast inn í þá hefð sem blakið er á Norðfirði.

„Við erum með marga aðflutta en líka fólk sem var í blaki áður og vill dusta rykið af kunnáttunni. Við erum með fullorðið fólk sem hefur fylgst með börnunum sínum í íþróttinni en líka fólk sem á ekki börn í blaki heldur vill taka þátt í hópíþrótt. Þetta er öllum opið.“

Þróttur er annars með reglulegar æfingar fyrir fullorðið fólk tvisvar í viku. Sá hópur stendur síðan að baki þremur liðum félagsins í neðri deildum Íslandsmótsins í blaki sem og þátttöku í hinu árlega Öldungamóti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar