FHL í Bestu deildinni 2025!
FHL tryggði sér í dag sæti í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu með 5-1 sigri á ÍBV í Fjarðabyggðarhöllinni. Þrjátíu ár eru síðan austfirskt lið lék síðast í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu.Eftir því sem líða fór á júlímánuð varð ljósara í hvað stefndi. Staðan skýrðist enn frekar í gærkvöldi þegar úrslit féllu þannig að áður en flautað var til leiks voru Grótta og ÍBV einu liðin sem áttu fræðilegan möguleika á að ná FHL.
Fræðilegur möguleiki ÍBV varð enn fjarlægari strax eftir þriggja mínútna leik þegar Emma Hawkins, sem eftir daginn hefur skorað 24 mörk í 14 deildarleikjum, kom FHL yfir úr vítaspyrnu. Meira var þó ekki skorað í fyrri hálfleik.
Aftur eftir þrjár mínútur eftir upphafsspyrnu, að þessu sinni í seinni hálfleik, bætti Emma við bæði öðru marki sínu og FHL. Á 56. mínútu skoraði Selena Del Carmen Salas Alonso þriðja markið úr víti. ÍBV náði að minnka muninn í 3-1 á 70. mínútu en Emma skoraði fjórða mark FHL á 81. mínútu og Sammy það fimmta á 89. mínútu.
Þar með er úrvalsdeildarsætið tryggt og deildarmeistaratitillinn nánast í höfn. FHL getur tryggt hann með jafntefli gegn Gróttu, sem er í öðru sæti, þegar liðin mætast á Seltjarnarnesi eftir viku.
Þetta er í fyrsta sinn í 30 ár sem austfirskt lið kemst í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Síðast var það Höttur sem spilaði í efstu deild kvenna sumarið 1994. Tenging er á milli þeirra liða. Lokaleikur þess liðs var 2-3 sigur gegn Dalvík. Hugrún Hjálmarsdóttir skoraði þar þriðja markið en hún er núverandi formaður FHL og móðir Róseyjar Björgvinsdóttur, fyrirliða FHL.
FHL komst upp í næst efstu deild, Lengjudeildina, í lok sumars 2021 og er því að ljúka sinni þriðju leiktíð þar. FHL varð upphaflega til sem Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir fyrir sumarið 2016 þegar félögin þrjú ákváðu að senda sameignlegt lið til keppni í úrvalsdeild kvenna. Leiknir dró sig út úr samstarfinu 2023 eftir að það hóf samstarf við Fjarðabyggð undir merkjum Knattspyrnufélags Austfjarða. Liðið lék fyrsta sumarið í riðlaskiptri næst efstu deild (fyrstu deild), en færðist niður í aðra deild þegar riðlaskiptingu var hætt árið eftir.
Athugasemd: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var Samönthu eignað annað mark Emmu. Það hefur verið leiðrétt og aðrir útreikningar því tengdir.