Fínn árangur Austfirðinga á Unglingameistarmóti Íslands í Oddsskarði

„Það þarf ekkert að fara í grafgötur með árangur austfirsku krakkanna því þau stóðu sig ótrúlega vel,“ segir Eðvald Garðarsson, hjá Skíðafélagi Fjarðabyggðar.

Um helgina fór fram í Oddsskarði eitt stærsta skíðamót sem fram fer á Íslandi ár hvert þegar unglingar hvaðanæva af öttu kappi á Unglingameistaramóti Íslands. Fengu keppendur fyrirtaks veður mótsdagana og færið með því allra besta að sögn Eðvalds.

Fyrir hönd Austurlands kepptu þar unglingar úr bæði Skíðafélaginu Stafdal og Skíðafélagi Fjarðabyggðar og gekk þeim flestum hverjum vel. Sérstaklega vakti athygli flottur árangur Hrefnu Láru Zoëga og Sólveigar Sigurjónu Hákonardóttur sem náðu 1. og 2. sætinu í alpatvíkeppni 12 til 13 ára stúlkna. Litlu munaði að Rakel Lilju Sigurðardóttir tækist að komast á verðlaunapall líka í þeim flokki en allar þrjár eru þær úr Skíðafélagi Fjarðabyggðar.

Eðvald er þakklátur fyrir að allt tókst mjög vel og fyrir utan eitt lítilsháttar slys í brekkunum var allt eins og best varð á kosið við mótshaldið og foreldrar og keppendur ánægðir með vel troðnar brekkurnar.

Skíðafélag Fjarðabyggðar hyggst innan tíðar sækja formlega um að fá að halda Skíðalandsmót Íslands á í mars eða apríl á næsta ári og telur Eðvald ágætar líkur á að það mót fari fram í Oddsskarði að ári.

„Bæði er aðstaðan öll hér með besta móti á landsvísu og nú höfum við sýnt aftur og aftur að við getum haldið stærri mót vandræðalaust og með stæl. Það yrði mjög gaman að halda slíkt mót hér.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar