Fjölnir - Fjarðabyggð: Hversu ógæfusamur getur maður orðið?

Fjarðabyggð er enn í fallsæti í 1. deild karla í knattspyrnu eftir 2-1 ósigur gegn Fjölni í Grafarvogi í gær. Leikmenn Fjarðabyggðar skoruðu sjálfsmark og brenndu af vítaspyrnu.

 

fjolnir_kff_0088_web.jpgFjölnir hafi betri tök á leiknum í fyrri hálfleik þar sem liðið hélt boltanum vel. Besta færið var stangarskot en Srdjan Rajkovic hafði nóg að gera við að slá fyrirgjafir frá Fjarðabyggðarmarkinu. Fjarðabyggð freistaði á móti að beita skyndisóknum með löngum sendingum en það gekk illa.

„Mér fannst frammistaðan í fyrri hálfleik góð. Við máttum ekki tapa, lögðum upp með að liggja aftarlega og halda hreinu þriðja leikinn í röð. Við vorum heldur afarlega og gáfum þeim of mikið pláss á miðjunni. Það vantaði líka greddu í sóknina og við unnum ekki annan bolta,“ sagði Heimir Þorsteinsson, þjálfari Fjarðabyggðar.

fjolnir_kff_0034_web.jpg„Þurfum að lenda undir“

Fjarðabyggð lenti undir á 53. mínútu þegar Andri Hjörvar Albertsson stýrði fyrirgjöf í eigið mark. Eftir það hressist Fjarðabyggð nokkuð, einkum með innkomu varamannanna Hilmars Bjartþórssonar og Sigurjóns Egilssonar.

„Það er rannsóknarefni sumarsins, við þurfum alltaf að lenda undir í leikjum til að það kvikni í okkur. Sigurjón og Hilmar komur mjög hressir inn og börðust vel.“

fjolnir_kff_0064_web.jpgHuglausir dómarar vernda ekki sóknarmennina

Hilmar var sérlega líflegur. Fjarðabyggðarmenn vildu tvisvar fá víti þegar hann féll við fyrir framan markið, þá kominn einn í gegn, undir pressu frá varnarmönnum. Loks var dæmt víti á 70. mínútu þegar Sveinbjörn Jónasson féll í teignum. Hrafn Davíðsson, markvörður Fjölnis, varði á móti spyrnu Jóhanns Benediktssonar vel. Í uppbótartíma datt Sveinbjörn aftur í teignum þegar varnarmaður Fjölnis virtist hafa sparkað aftan í hann en Kristinn Jakobsson, dómari leiksins, áminnti Sveinbjörn fyrir leikaraskap.

„Við fengum víti, sem við áttum að skora úr en við hefðum átt að fá tvö í viðbót. Þegar maður heyrir smell í löpp inni í teig þá spjaldarðu ekki manninn sem dettur.

Það er tvisvar farið aftan í Hilmar og hann tafinn. Hvað er það sem kemur í veg fyrir að Hilmar setji löppina í boltann? Það er varnarmaðurinn. Hann togar í hann, ekki mikið, en nóg.

fjolnir_kff_0071_web.jpgÞað er hugleysi að toppmaður eins og Kristinn Jakbosson taki ekki á þessu. Það vantar hugrekki í dómara til að afgreiða svona mál. Í upphafi móts er alltaf talað um að sóknarmaðurinn eigi að njóta vafans en síðan er ekkert farið eftir þessu.

Hér eru 20-30 hræður að horfa á leikinn. Þetta er ekki Evrópukeppni, hvernig ætlar hann að komast í gegnum svoleiðis pressu ef hann þolir ekki pressuna frá áhorfendum.“

fjolnir_kff_0057_web.jpg„Vinnum Leikni í næsta leik“

Pétur Georg Mark kom Fjölni síðan í 2-0 áður en Sigurjón Egilsson minnkaði munni fyrir Fjarðabyggð á 89. mínútu með skallamarki.

Staða Fjarðabyggðar er því býsna svört. Um seinustu helgi mistókst liðinu að vinna botnlið Fjarðabyggðar á heimavelli og eftir eru leikir gegn Leikni Reykjavík á Eskifiðri og Þór á Akureyri. Bæði liðin berjast fyrir því að komast upp í úrvalsdeild. Stigi fyrir ofan Fjarðabyggð er Grótta sem tapað hefur stórt í undanförnum leikjum en leikur gegn botnliði Njarðvíkur í seinusta leik.

„Við vinnum Leikni um næstu helgi, ég er nokkuð viss um það. Það er ekkert annað í boði. Þannig erum við með inn í seinasta leik. Okkur vantaði að minnsta kosti eitt stig í dag en mikið andskoti væri svekkjandi að sitja eftir með eitt stig þegar frammistaða okkar er þó svona,“ sagði Heimir sem dró leikinn saman í orðunum „hversu ógæfusamur geturðu orðið?“

Í 2. deild karla tapaði Höttur í gær fyrir Víkingi frá Ólafsvík á Egilsstöðum 1-2. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði mark Hattar sem komst yfir. Ólafsvíkingar tryggðu sér þar sigur í deildinni.
fjolnir_kff_0074_web.jpgfjolnir_kff_0097_web.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar