Fótbolti: Einherji og Spyrnir byrja vel í fjórðu deildinni
Einherji og Spyrnir hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í E riðli fjórðu deildar karla í knattspyrnu í sumar. KFA náði í sitt annað stig í sumar og Linli Tu heldur áfram að skora fyrir Fjarðabyggð/Hött/Leikni.Einherji tók á móti Hömrunum á laugardag. Stefan Balev skoraði strax á 9. mínútu en gestirnir jöfnuðu úr víti á 28. mínútu. Helgi Már Jónsson kom Einherja aftur yfir tíu mínútum fyrir leikhlé. Carlos Javier skoraði þriðja mark Einherja á 79. mínútu og Alejandro Barce það fjórða fimm mínútum fyrir leikslok. Annað mark gestanna kom í uppbótartíma.
Mörkin voru öllu færri þegar Spyrnir vann Samherja á Hrafnagilsvelli. Gamla brýnið Þórarinn Máni Borgþórsson skoraði eina markið úr vítaspyrnu á 17. mínútu.
Einherji og Spyrnir hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni. BN og Máni mætast á Norðfjarðarvelli í kvöld en þau töpuðu fyrir fyrrnefndu tveimur liðunum í fyrstu umferð.
Í annarri deild karla gerði KFA jafntefli 1-1 gegn Völsungi á heimavelli. Tómas Atli Björgvinsson skoraði eina mark KFA á 18. mínútu en Húsvíkingar jöfnuðu eftir tólf mínútur í seinni hálfleik.
Mathesu Bettio skoraði strax á sjöttu mínútu fyrir Hött/Huginn gegn Magna á Grenivík á föstudagskvöld. Rafal bætti við öðru tveimur mínútum fyrir leikhlé og staðan leit vel út fyrir liðið úr Múlaþingi. Þá kviknaði á Kristni Óskari Óskarssyni sem minnkaði muninn í uppbótartíma, jafnaði eftir sjö mínútur í seinni hálfleik og kom Magna yfir á 60. mínútu úr víti. Hann hafði þannig skorað þrennu á innan við 15 mínútna leiktíma.
Höttur/Huginn er á botninum, stigalaus eftir þrjár umferðir en KFA er skömmu ofar með tvö stig. Höttur/Huginn tekur á móti Ægi í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar á Fellavelli annað kvöld.
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tapaði sínum fyrsta leik í Lengjudeild kvenna í sumar gegn FH sem þar með náði efsta sætinu. Linli Tu kom Austfjarðaliðinu yfir á 23. mínútu og þannig var í hálfleik. Tvö mörk FH á fyrsta kortérinu í seinni hálfleik snéri leiknum gestunum í vil.
Í annarri deild kvenna tapaði Einherji sínum fyrsta leik, 3-1 gegn Álftanesi. Yoana Peralta skoraði mark Einherja eftir hálftíma leik.