Fótbolti: FHL komið á topp Lengjudeildar kvenna

FHL er jafnt Aftureldingu að stigum í Lengjudeild kvenna eftir sigur á ÍBV um helgina. KFA skoraði þrjú mörk á síðustu tíu mínútum í sigri á Haukum.

FHL vann magnaðan 3-4 sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum á laugardag. Öll mörk FHL komu í fyrri hálfleik enda var staðan eftir hann 1-4 en FHL lék þá undan vindi.

Samantha Smith skoraði fyrsta markið á 5. mínútu og Emma Hawkins það annað á 9. mínútu. ÍBV minnkaði muninn á 15. mínútu, þriðja mark FHL var sjálfsmark á 24. mínútu og Samantha það fjórða á 32. mínútu. ÍBV skoraði tvö mörk í seinni hálfleik en það breytti engu um úrslitin.

FHL er jafnt Aftureldingu í efstu sætum deildarinnar en Mosfellsbæjarliðið er með betra markahlutfall. Aðeins er vika síðan FHL vann Aftureldingu.

Í annarri deild kvenna gerði Einherji 2-2 jafntefli við Hauka í Hafnarfirði. Einherji var kominn 2-0 undir um miðjan fyrri hálfleik en Karólína Dröfn Jónsdóttir lagaði stöðuna á 27. mínútu. Claudia Merino jafnaði á sjöttu mínútu uppbótartíma leiksins. Einherji er um miðja deildina.

Karlalið Hauka spilaði við KFA eystra í annarri deild karla. Markalaust var í hálfleik en Haukar komust yfir á 65. mínútu. KFA snéri hins vegar leiknum sér í vil með þremur mörkum á sjö mínútum undir restina. Marteinn Már Sverrisson skoraði fyrst á 82. mínútu, Eiður Orri Ragnarsson á 87. mínútu og Heiðar Snær Ragnarsson loks á 89. mínútu.

Í þeirri deild gerði Höttur/Huginn 2-2 jafntefli við Völsung á Húsavík. André Musa kom Hetti/Huginn yfir á 16. mínútu en heimaliðið jafnaði skömmu fyrir hálfleik og komst yfir úr vítaspyrnu eftir tíu mínútur í seinni hálfleik. Varamaðurinn Sæbjörn Guðlaugsson jafnaði tíu mínútum fyrir leikslok.

Liðin fylgjast að en skiptust á sætum þar sem KFA er nú komið í 5. sæti en Höttur/Huginn sækir þar á eftir.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.