Fótbolti: FHL tók við bikarnum úr hendi landsliðsþjálfarans – Myndir

FHL fékk á laugardag deildarmeistratitilinn í Lengjudeild kvenna formlega afhentan að loknum síðasta heimaleik tímabilsins sem var 6-4 sigur á ÍR. Í annarri deild karla eru vonir KFA um að komast upp um deild endanlega úr sögunni.

Fyrir leik mátti búast við öruggum sigri FHL miðað við stöðu liðanna í deildinni, FHL öruggur deildarmeistari en ÍR fallið. Leikurinn spilaðist þó ekki þannig í fyrri hálfleik.

Kristín Magdalena Barboza kom FHL yfir á 11. mínútu en ÍR-liði jafnaði strax og komst svo yfir tíu mínútum síðar. Alexa Bolton jafnaði á 25. mínútu, Björg Gunnlaugsdóttir kom FHL aftur yfir á 29. mínútu og Hafdís Ágústsdóttir skoraði fjórða mark FHL á 31. mínútu. ÍR minnkaði þó muninn fimm mínútum fyrir leikhlé.

Í seinni hálfleik kom munurinn á liðunum betur í ljós því hann var eign FHL, sem náði að pressa og vinna boltann sæmilega framarlega. Liðið fékk nokkur færi auk þess sem tvö mörk voru dæmd af vegna rangstöðu.

Loks á 72. mínútu skoraði Björg löglegt mark eftir að hafa sloppið inn fyrir vörnina hægra megin. Hún fullkomnaði þrennu sína á 81. mínútu þegar hún skoraði úr víti eftir að hendi var dæmd á varnarmann ÍR. ÍR átti eitt mark inni, úr einni af fáum alvöru sóknum sínum í hálfleiknum.

Ekki besti leikurinn


„Þetta var ekki frábær leikur en gott að vinna síðasta heimaleikinn. Við tókum góðan fund í hálfleik og bættum eftir hann það sem gekk illa í fyrri hálfleik og héldum áfram því sem gekk vel,“ sagði Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FHL í leikslok.

Þar sem um var að ræða síðasta heimaleik tímabilsins var liðinu afhentur deildarmeistaratitillinn, sem það tryggði sér fyrir rúmri viku. Það gerði Norðfirðingurinn Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. „Ég get ekki lýst hvað það er geggjuð tilfinning (að hafa tekið við bikarnum). Það er frábært að hafa afrekað þetta með þessum stelpum,“ sagði Rósey.

Annað hvort Fram eða Grótta munu fylgja FHL upp í úrvalsdeildina. Lokaleikur FHL verður gegn Fram í Reykjavík eftir viku. „Við erum bara að hugsa um að klára þetta tímabil áður en við förum að hugsa um það næsta. Eftir leikinn tökum við gott hlé áður en við förum að einbeita okkur að Bestu deildinni,“ sagði Rósey.

Í leikslok var skýrt frá því að bæjarráð Fjarðabyggðar hefði ákveðið að veita liðinu afreksstyrk upp á tvær milljónir króna. Upphæð styrks vegna árangursins verður ákveðin við gerð fjárhagsáætlunar Múlaþings síðar í haust.

Dýrkeypt jafntefli á heimavelli


Af úrslitum annarra austfirska liða um helgina er fátt gott að frétta. Höttur/Huginn steinlá gegn efsta liðinu Selfossi, 5-0, í annarri deild karla. Þar eru vonir KFA um að komast upp úr henni úr sögunni eftir 3-3 jafntefli gegn Ægi á heimavelli í gær.

Ægir komst yfir á 15. mínútu en Jacques Fokam Sandeu jafnaði á 23. mínútu og Marteinn Már Sverrisson kom KFA yfir á 35. mínútu. Ægir skoraði tvö mörk fyrsta kortérið í seinni hálfleik en Sandeu jafnaði á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Önnur úrslit helgarinnar gerðu síðan endanlega út um tölfræðilega möguleika KFA á að komast upp um deild. Liðið er í 5. sæti með 32 stig þegar tveir leikir eru eftir, sjö stigum frá Völsungi sem er í öðru sætinu. Höttur/Huginn er í 7. sæti með 27 stig og hefur tapað fjórum leikjum í röð.

Í umspili efsta hluta 2. deildar kvenna tapaði Einherji 1-2 fyrir KR á Vopnafirði. KR-ingar voru 0-2 yfir þegar Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði á 64. mínútu.

AS3P1060 Web
AS3P1068 Web
AS3P1075 Web
AS3P1080 Web
AS3P1089 Web
AS3P1096 Web
AS3P1103 Web
AS3P1107 Web
AS3P1112 Web
AS3P1118 Web
AS3P1122 Web
AS3P1135 Web
AS3P1152 Web
AS3P1157 Web
AS3P1160 Web
AS3P1166 Web
AS3P1169 Web
AS3P1199 Web
AS3P1213 Web
AS3P1242 Web
AS3P1251 Web
AS3P1266 Web
AS3P1268 Web
AS3P1281 Web
AS3P1285 Web
AS3P1287 Web
AS3P1292 Web
DL6R1467 Web
DL6R1471 Web
DL6R1473 Web
DL6R1474 Web
DL6R1482 Web
DL6R1489 Web
DL6R1503 Web
DL6R1510 Web
DL6R1516 Web
DL6R1520 Web
DL6R1556 Web
DL6R1563 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.