Fótbolti: Höttur/Huginn hafði betur gegn Einherja - Myndband

Höttur/Huginn er með fullt hús stiga að loknum þremur umferðum í þriðju deild karla í knattspyrnu. Liðið vann nágrannaslag gegn Einherja á Fellavelli í gærkvöldi.

Heiðar Aðalbjörnsson kom Einherja yfir með föstu skoti fyrir utan teig strax á fyrstu mínútu en Stefan Spasic jafnaði á 37. mínútu með skalla eftir hornspyrnu. Knut Erik Mykleburst tryggði síðan Hetti þegar hann potaði boltanum yfir línuna eftir atgang í teignum fimm mínútum fyrir leikslok.

„Það var léttir að skora sigurmarkið því Einherji veitti okkur mjög erfiðan leik,“ sagði Brynjar Árnason, þjálfari Hattar/Hugins í viðtali við miðla félagsins eftir leik.

„Ég hafði alltaf á tilfinningunni að við myndum jafna því mér fannst við hafa stjórn á leiknum strax eftir að þeir skoruðu og við fengum færi. Mér fannst ganga verr að skapa færi í seinni hálfleik. Þá gerðum við breytingar og það skilaði marki í lokin.“

Höttur/Huginn er efstur í deildinni með níu stig af níu mögulegum. Leita þarf aftur til ársins 2015 til að finna sambærilega byrjun hjá forvera liðsins, Huginn en liðið náði þessum árangri í annarri deildinni þá. Því sumri lauk með því að félagið fór upp um deild. Einherji er án stiga en bara búinn með tvo leiki.

Fjarðabyggð tekur á móti Magna í annarri deild karla í kvöld og Leiknir heimsækir Fjallabyggð á morgun. Þá fer Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir á Álftanes í annarri deild kvenna en Einherji í Grafarvogi og leikur gegn Fjölni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.