Fótbolti: Mikilvægur sigur KFA í baráttunni um að komast upp um deild

Knattspyrnufélag Austfjarða komst skrefi nær því að spila í næst efstu deild að ári með 0-2 sigri á Haukum í Hafnarfirði um helgina. Einherji vann mikilvægan sigur á Fjölni í annarri deild kvenna og á enn möguleika á að fara upp um deild.

Það var Esteban Selpa sem kom KFA yfir á 28. mínútu og Danilo Milenkovic skoraði annað markið á 52. mínútu.

En önnur úrslit helgarinnar gerðu það líka að verkum að frá KFA, sem er í öðru sæti, niður í næstu sæti er orðinn þriggja stiga munur. Þar eru ÍR og Víkingur Ólafsvík. Stórleikur er framundan um næstu helgi þegar ÍR og KFA mætast í næst síðustu umferðinni.

Þar á eftir kemur Höttur/Huginn með 33 stig. Heiðar Logi Jónsson skoraði eina markið í 1-0 sigri á KV á Vilhjálmsvelli um helgina á 54. mínútu. Liðið mætir efsta liðinu, Dalvík/Reyni, á föstudagskvöld. Dalvíkurliðið hefur 39 stig.

Einherji er áfram í baráttunni um að komast upp úr annarri deild kvenna eftir 2-1 sigur á Fjölni á Vopnafirði um helgina. Claudia Maria Daga Merino skoraði bæði mörkin rétt fyrir leikhlé. Gestirnir minnkuðu muninn á 80. mínútu en tíu mínútum fyrr hafði þjálfari þeirra fengið rauða spjaldið.

Einherji er í 6. sæti deildarinnar en það segir ekki alla söguna því aðeins munar tveimur stigum á ÍA í öðru sæti og Vopnafjarðarliðinu. Tvær umferðir eru eftir af deildinni.

Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL 4-0 fyrir Fylki í Árbæ. FHL er í 8. sæti með 17 stig þegar einn leikur er eftir.

Úr leik Hattar/Hugins og KV um helgina. Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.