Fótbolti: Róðurinn orðinn þungur hjá KFA

Möguleikar KFA á að komast upp úr annarri deild karla biðu alvarlega hnekki um helgina þegar liðið tapaði fyrir KFG. Öll austfirsku liðin töpuðu leikjum sínum um helgina.

KFA virtist aftur á ágætum stað eftir 8-2 sigur á Hetti/Huginn á miðvikudagskvöld. 4-1 tap í Garðabæ um helgina hefur á móti komið liðinu í afar erfiða stöðu. KFA var 2-0 undir í hálfleik og lenti 4-0 undir áður en Eiður Orri Ragnarsson skoraði á 40. mínútu.

Höttur/Huginn veitti KFA ekki hjálp um helgina en liðið tapaði 1-3 á heimavelli fyrir Víking Ólafsvík, en Víkingur er eitt þeirra liða sem er í samkeppni við KFA um að fylgja Selfossi upp um deild. Árni Veigar Árnason skoraði mark Hattar/Hugins á 39. mínútu, strax eftir annað mark gestanna. Þanig var staðan þar til um kortér var eftir af leiknum.

Úrslitin þýða að möguleikar Hattar/Hugins á að komast upp eru aðeins tölfræðilegir. Liðið er í sjötta sæti með 27 stig eftir þrjú töp í röð.

KFA er í fimmta sæti með 31 stig. Vandamálið er að munurinn í næstu lið eru fjögur stig og fimm stig í Völsung í öðru sætinu og topplið Selfoss er formlega utan seilingar. Þetta þýðir að margt þarf að ganga upp í síðustu þremur leikjunum til að KFA komist upp.

Það er þó ekkert ómögulegt. Liðið á næst heimaleik gegn Ægi og svo útileik gegn Kormák/Hvöt. Sigrar í þeim leikjum gætu gert síðasta leikinn, gegn Völsungi á heimavelli, að úrslitaleik um fyrstu deildar sætið.

Í fimmtu deild karla lauk Spyrnir keppni síðasta miðvikudag með 2-1 tapi gegn Samherjum í Eyjafirði. Ármann Davíðsson skoraði markið en hann átti gott sumar með níu mörkum í 13 leikjum. Spyrnir endaði í 6. sæti A-riðils með 18 stig.

FHL tapaði öðrum leik sínum í Lengjudeild kvenna í röð og fyrstu stigunum á heimavelli er liðið lá 1-4 gegn Grindavík. Selena Salas skoraði eina mark FHL á 77. mínútu, er liðið var komið 0-4 undir. Það breytir því ekki að liðið er öruggt með deildarmeistaratitilinn.

Í efsta hluta 2. deildar kvenna tapaði Einherji illa, 7-0, fyrir Haukum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.