Fótbolti: Tap Hattar/Hugins gegn Völsungi líka vont fyrir KFA

Staða austfirsku liðanna í baráttunni um að komast upp úr annarri deild karla í knattspyrnu versnaði um helgina. FHL þarf að bíða lengur eftir deildarmeistaratitlinum í Lengjudeildinni.

Höttur/Huginn tók á móti Völsungi í annarri deild karla á Vilhjálmsvelli á föstudagskvöld. Leikurinn var þýðingarmikill þar sem Völsungur er í baráttunni um að fylgja Selfossi upp og var fyrir leikinn tveimur stigum á undan Hetti/Huginn.

Húsavíkurliðið skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik. Annars bar það helst til tíðinda að Gunnar Einarsson, varamarkvörður Hattar/Hugins, var rekinn af bekknum í uppbótartíma.

KFA spilaði gegn Haukum í Hafnarfirði á laugardag og tapaði 3-1. Jacques Fokam Sandeu kom KFA yfir á tíundu mínútu en Haukar jöfnuðu skömmu síðar. Arek Grzelak var svo óheppinn að skora sjálfsmark snemma í seinni hálfleik og þriðja mark Haukar kom í lok leiks.

Úrslitin þýða að Völsungur er í öðru sæti deildarinnar með 32 stig þegar fimm umferðir eru eftir. KFA er í fimmta sæti með 28 stig og Höttur/Huginn í sjötta sæti með 27 stig. Víkingur Ólafsvík og Þróttur Vogum eru einni í þessum pakka. Austfjarðaliðin þurfa hins vegar nú orðið tvo leiki til að ná Völsungi. KFA tekur á móti Völsungi í lokaumferðinni.

En fyrst er það nágrannaslagur KFA og Hattar/Hugins á miðvikudagskvöld klukkan 18:00. Leikurinn er opnunarleikur á endurbættum Norðfjarðarvelli, en nýbúið er að leggja nýtt gervigras á hann. Væntanlega ræður sá leikur líka hvort liðið hangir áfram í baráttunni um að fara upp.

Spyrnir spilaði sinn síðasta heimaleik í fimmtu deild þetta sumarið. Liðið tapaði 1-2 fyrir Álftanesi. Ármann Davíðsson minnkaði muninn á 52. mínútu en gestirnir voru 0-2 yfir í hálfleik.

FHL mistókst að tryggja sér sigur í Lengjudeild kvenna. Eftir 11 sigurleiki í röð var komið að tapi gegn Gróttu á útivelli, en Seltjarnarnessliðið er í öðru sæti. FHL lék án markahrókanna Emmu Hawkins og Samönthu Smith, sem fór frá liðinu eftir að það tryggði sér sæti í úrvalsdeild um síðustu helgi. Grótta vann 1-0 með marki snemma í seinni hálfleik.

Á Vopnafirði hóf Einherji leik í A-úrslitum annarrar deildar kvenna með 1-1 jafntefli gegn ÍH. Sara Líf Magnúsdóttir jafnaði á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.