Fyrirliðinn: Mest spennandi leikur sem ég hef spilað

blak_throttur_hk_bikar_0195_web.jpgKristín Salín Þórhallsdóttir, fyrirlið bikarmeistara Þróttar í blaki, segist ekki hafa spilað spennuþrungnari leik en bikarúrslitaleikinn gegn HK í dag. Þróttur lagði ríkjandi bikarmeistarana eftir æsilega oddahrinu.

 

„Þetta er sennilega mest spennandi leikur sem ég hef spilað. Ég get ekki lýst því sem fram fer í huga manns þegar staðan er orðin svona,“ segir Kristín um lokamínúturnar í oddahrinunni. Liðin skiptust á forustunni og fengu bæði færi til að gera út um leikinn.

„Maður hugsar um hvert einasta stig. Það er ótrúlega magnað að vera inn á í svona leik og sigurinn verður enn sætari fyrir vikið,“ sagði Kristín og bætti við. „Ég hefði alls ekki viljað vera hinum megin.“

Kristín segir að þegar ljóst var hvert stefndi í fjórðu hrinu hefði Þróttur sett allt kapp á að koma til baka í oddahrinunni. „Við sýndum mikinn baráttuvilja í byrjun en gáfum síðan eftir. Við gáfum þeim fjórðu hrinu en vorum ákveðnar í að koma sterkar inn í fimmtu hrinuna.“

Þróttur endurheimti þar með bikarmeistaratitilinn sem félagið vann seinast árið 2008. HK vann hins vegar þrefalt í fyrra. Liðin berjast enn hatrammlega á tvennum vígstöðvum. Þau mætast í hreinum úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn um næstu helgi og úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn verður í apríl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar