Fyrsta mótið á nýjum strandblakvelli

Image Fyrsta mótið á nýjum strandblakvelli í Neskaupstað var haldið á laugardag. Sandurinn í völlinn kom alla leið frá Póllandi. Sama dag spilaði kvennalið félagsins sinn fyrsta deildarleik í vetur.

 

Í völlinn þurfti um 300 tonn af skeljasandi en svæðið rúmar tvo strandblaksvelli. Fyrirtæki á svæðinu, svo sem Síldarvinnslan, Alcoa Fjarðaál og SÚN studdu við verkefnið sem fjöldi sjálfboðaliða bar hitann og þungann af.

Alls mættu 14 lið til leiks og voru 3-4 leikmenn í hverju liðið. Sigurvegarar í flokki fullorðinna voru þau Unnur Ása, Finnur og Guðmundur en í flokki barna og unglinga sigruðu Eydís, Ragnar, Alexandra og Árdís.

Forsvarsmenn blakdeildar Þróttar segja mótið lofa góðu fyrir næsta sumar þar sem stefnt er á að halda regluleg mót fyrir unga sem aldna. Hluti mótaraðar Blaksambands Íslands í strandblaki fer þá fram í Neskaupstað.

Kvennalið félagsins vann KA fyrr um daginn 3-0 (25-20; 25-16 og 25-13) í sínum fyrsta deildarleik í vetur. Liðið hefur misst hina hávöxnu Erlu Rán Eiríksdóttur en Kristín Salín Þórhallsdóttir er snúin heim frá HK og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir er byrjuð á ný.

Körfuknattleiksleið Hattar tapaði sínum fyrsta leik í vetur fyrri Skallagrími 70-76 á Egilsstöðum í seinustu viku. Viggó Skúlason hefur tekið við þjálfun liðsins og jafnframt dregið fram skóna eina ferðina enn.

Viðar Örn Hafsteinsson og Björn Benediktsson eru snúnir heim eftir nokkurra ára námsútlegð. Þá er nýr bandarískur leikmaður, Daniel Terrell, kominn til liðsins . Viðar Örn var stigahæstur með 26 stig auk þess sem hann tók 11 fráköst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar