Fyrstu leikirnir um sjómannadagshelgina

Fyrstu knattspyrnuleikirnir á Austurlandi á þessari leiktíð verða um sjómannadagshelgina þegar bikarkeppni Knattspyrnusambandsins hefst. Ekki verður leikið í Íslandsmótinu eystra fyrr en í lok júní.

Þetta kemur fram þegar farið er yfir nýja leikjaniðurröðun KSÍ sem birt var á föstudag. Upphaflega átti Íslandsmótið að hefjast fyrstu helgina í maí og bikarinn aðeins fyrr en Covid-19 faraldurinn rústaði þeim áformum.

Samkvæmt nýju leikjaniðurröðuninni verður fyrsti leikurinn eystra laugardaginn 6. júní þegar karlalið Hattar/Hugins tekur á móti Sindra. Daginn eftir tekur Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir á móti Hömrunum í kvennaflokki.

Laugardaginn þrettánda tekur Leiknir á móti Einherja og Fjarðabyggð heimsækir sigurvegarann úr leik Hattar/Hugins og Sindra.

Kvennaliðið á fyrsta heimaleikinn í Íslandsmótinu eystra, sunnudaginn 21. júní, gegn Fram í annarri deild kvenna. Karlalið Leiknis, Fjarðabyggðar, Einherja og Hugins/Hattar hefja öll leik sömu helgi á útivöllum.

Fjarðabyggð og Huginn/Höttur spila heimaleiki laugardaginn 27. júní og Leiknir daginn eftir. Fyrsti heimaleikur Einherja verður ekki fyrr en 4. júlí.

Faraldurinn hefur einnig þau áhrif að leikið verður lengra inn í haustið en tíðkast hefur. Íslandsmóti karla lýkur 10. október en kvenna 3. október. Þann dag leika sömuleiðis öll austfirsku liðin síðustu heimaleiki sína.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.