Góður árangur á fyrsta skíðamóti vetrarins

Fimm austfirskir keppendur náðu á verðlaunapall á fyrsta mótinu af þremur í bikarkeppni Skíðasambands Íslands í aldursflokki 12-15 ára.

Mótið fór fram síðustu helgi janúarmánaðar á skíðasvæði Dalvíkinga, Böggvistaðafjalli. Þangað mættu ellefu krakkar úr skíðafélögunum í Fjarðabyggð og Stafdal sem keppa saman á landsvísu undir merkjum UÍA. Níu keppendur voru í flokki 12-13 ára en tveir í flokki 14-15 ára.

Jakob Kristjánsson varð efstur í svigi í flokki 12 ára drengja. Í stúlknaflokki varð Amalía Zoega í öðru sæti í svigi og Rut Stefánsdóttir í því þriðja. Rut náði einnig þriðja sæti í stórsvigi.

Í flokki 14 ára stúlkna varð Jóhanna Lilja Jónsdóttir í fyrsta sæti í svigi og Rósey Björgvinsdóttir í öðru. Jóhanna varð einnig önnur í stórsvigi en þar varð Rósey fjórða.

Skíðaæfingar eru nú komnar á fullt hjá félögunum tveimur. Opið hefur verið á skíðasvæðinu í Oddsskarði í nokkurn tíma og opnað var í Stafdal í síðustu viku.

Bikarkeppnin samanstendur af þremur mótum hvern vetur þar sem samanlagður árangur keppenda er reiknaður til stiga í lokin. Bæði er keppt milli einstaklinga og milli liða. Næsta mót verður í Bláfjöllum um komandi helgi og síðasta mótið í Hlíðarfjalli í lok mars.

Mynd: Jón Egill Sveinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.