Haukur Ingvar og Heimir þjálfa Fjarðabyggð
Heimir Þorsteinsson og Haukur Ingvar Sigurbergsson þjálfa karlalið Fjarðabyggðar í knattspyrnu. Páll Guðlaugsson heldur ekki áfram með liðið sem féll úr fyrstu deild í haust. Útlit er fyrir að markvörðurinn Srdjan Rajkovic yfirgefi félagið.
Páll og Heimir hafa stýrt liðinu undanfarin tvö sumur. Í yfirlýsingu stjórnar Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar segir að sú stefna hafi verið mörkuð að hver þjálfari verði aðeins með einn af flokkum félagsins. Eftir er að ráða þjálfara fyrir meistaraflokk kvenna og annan flokk karla.
Haukur Ingvar, sem verið hefur fyrirliði liðsins undanfarin ár, sleit krossband í byrjun sumars og lék ekkert með. Hann verður spilandi þjálfari.
Í yfirlýsingu KFF segir að búið sé að ræða við flesta leikmenn karlaliðsins sem stefni á að vera áfram. Undantekningin er markvörðurinn Srdjan Rajkovic, sem leikið hefur með Fjarðabyggð og forverum þess í áratug og var fyrirliði liðsins í sumar. Hann er á leið til Þórs Akureyri sem spilar í úrvalsdeild næsta sumar. Ekki hefur samt verið gengið frá félagaskiptunum. Rajko var valinn besti leikmaður liðsins í sumar.