Helgaruppgjör: Fyrsti sigur Einherja í sex vikur

Uppskera knattspyrnuliða á Austurlandi var misjöfn eftir helgina. Í 3. deild karla unnu Einherji og Höttur/Huginn sína leiki en báðir voru þeir gegn KFS frá Vestmannaeyjum

KFS lék gegn Einherja á Vopnafirði á laugardaginn og lauk leiknum með 2-1 sigri Einherja þar sem Björn Andri Ingólfsson og Ismael skoruðu mörk Einherja en Eyþór Daði Kjartansson fyrir KFS. Einherji vann þar með sinn fyrsta sigur í 3. deildinni frá 9. júní. Sigurinn var afar mikilvægur fyrir liðið sem er nú með tíu stig á botni deildarinnar en aðeins einu stigi frá öruggu sæti. Því stefnir allt í spennandi botnbaráttu í 3. deild.


Um sólarhring eftir leikinn á Vopnafirði lék KFS gegn Hetti/Hugin á Egilsstöðum. Höttur/Huginn vann leikinn auðveldlega 4-1 þar sem Kristófer Einarsson, Pablo Carrascosa, Valdimar Brimir Hilmarsson og Kristján Jakob Ásgrímsson skoruðu mörk Hattar/Hugins og Frans Sigurðsson mark KFS. Ekkert virðist ætla að stöðva Hött/Huginn í því að komast upp um deild en liðið er með góða forystu í efsta sæti deildarinnar.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. nældi sér í þrjú mikilvæg stig í 2. deild kvenna með sigri á Knattspyrnufélaginu Hlíðarenda 0-3. Mörk Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis F. skorðuðu Halldóra Birta Sigfúsdóttir, Ársól Eva Birgisdóttir og Alexandra Taberner Tomas. Eins og staðan er núna í deildinni þarf liðið aðeins tvö stig til viðbótar í næstu tveimur leikjum sem eftir eru til að gulltryggja sig í úrslitakeppnina sem fram fer um laus sæti í 1. deildinni að ári.

Fjarðabyggð tapaði 4-0 annan leikinn í röð í 2. deild karla og nú gegn Völsungi. Staða Fjarðabyggðar er verulega slæm en liðið situr í neðsta sæti deildarinnar með fimm stig og hefur enn ekki unnið leik eftir þrettán leiki. Átta stig eru upp í öruggt sæti í deildinni og er útlitið býsna dökkt fyrir liðið.

Leiknir F. gerði markalaust jafntefli við ÍR í 2. deild og lagaði stöðu sína í deildinni ögn með því. Liðið er í tíunda sæti, sæti fyrir ofan fallsæti, með þrettán stig og sjö stig eru niður í fallsæti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.