Helgin: Bikar á loft hjá FHL

FHL tekur á móti deildarmeistaratitili Lengjudeildar kvenna í síðasta heimaleik sínum í sumar sem spilaður verður á morgun. Á Egilsstöðum verður gengið í sólarhring til styrktar rannsóknum á krabbameini og ný sýning opnar á Vesturvegg Skaftfells.

FHL leikur á morgun sinn síðasta heimaleik í sumar þegar ÍR kemur í heimsókn í Fjarðabyggðarhöllina. Þrjár vikur eru síðan FHL tryggði sér úrvalsdeildarsætið og tíu dagar síðan deildarmeistaratitillinn var í höfn en á morgun verður bikarinn formlega afhentur. Leikurinn hefst klukkan 14:00.

Í annarri deild karla á KFA heimaleik gegn Ægi á sunnudag sem skiptir máli til að halda vonum liðsins um að komast upp um deild á lífi. Á Vopnafirði tekur Einherji á móti KR í umspili efsta hluta annarrar deildar kvenna á morgun. Höttur/Huginn á útileik gegn Selfossi.

Á Vilhjálmsvelli verða Styrkleikarnir haldnir annað árið í röð. Um er að ræða boðhlaup þar sem gengið um völlinn í sólarhring, frá hádegi á morgun til hádegis á sunnudag, til fjársöfnunar fyrir rannsóknum á krabbameini, til að styðja við fólk sem greinst hefur með krabbamein í nærsamfélaginu og sem táknrænn stuðningur við fólk sem hefur greinst með mein.

Á Seyðisfirði opnar klukkan 17:00 ný listsýning listamannsins Liusar Lohmanns á Vesturvegg Skaftfells. Linus notar fjölbreyttar aðferðir, svo sem teikningu, prentgerð og skúlptúr, við vinnslu mynda og hluta þar sem hann kannar skynjun efnis í endurgerðum birtingarmyndum. Á sýningunni eru ný verk úr röðinni eftir Dieter Roth „Trophies.“

Linus, sem býr á Seyðisfirði, hefur nóg að gera þessa dagana í því fyrir viku opnaði hann aðra sýningu í galleríi Skriðuklausturs. Hann notar oft handsmíðað verkfæri eða vélar til að móta niðurstöður sem innihalda ferli, frammistöðu og, í sumum tilfellum, teikningar búnar til með sérstökum hreyfingum eða flóknum ferlum.

Þá fer Ferðafélag Fljótsdalshérað í göngu upp í Lambadal, innst í Borgarfirði á morgun. Þar verður meðal annars skoðuð ummerki mikils jarðraks sem varð þar árið 1937 og gengið upp á Krosstind. Farið verður frá húsnæði Ferðafélagsins á Egilsstöðum klukkan átta í fyrramálið eða frá Fjarðarborg á Borgarfirði klukkan níu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.