Höttur í bikarúrslitum um helgina

karfa_hottur_kr_9fl_0029_web.jpgTíundi flokkur Hattar í körfuknattleik karla leikur gegn A liði Stjörnunnar í bikarúrslitum um helgina. Liðið tryggði sér þar þátttökurétt um seinustu helgi. Þetta er í fyrsta sinn sem lið frá félaginu kemst þetta langt.

 

Höttur vann um seinustu helgi Stjörnuna B 49-34. Eysteinn Bjarni Ævarsson var stigahæstur, skoraði 18 stig og tók átta fráköst en Nökkvi Óskarsson skoraði 12 stig. Áður hafði Höttur slegið út Ármann og Þór/FSU.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari liðsins, segir liðið eiga mikið inni fyrir úrslitaleikinn þar sem andstæðingarnir verða A lið Stjörnunnar.

„Undanúrslitaleikurinn var ekki vel spilaður af okkar hálfu en við eigum mikið inni og strákarnir eru staðráðnir í að taka dolluna austur. Við vorum mjög heppnir með drátt í undanúrslitum og eigum góðan séns á sigri íúrslitum þar sem við höfum spilað 2 hnífjafnaleiki við Stjörnuna A í vetur.“

Úrslitaleikurinn fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði á sunnudag klukkan 12:00. Í fyrra lék flokkurinn til úrslita í Íslandsmeistaramótinu en féll úr leik fyrir KR í gríðarlega jöfnum leik.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar