Íþróttir: Höttur með örugga forustu í jólafríið

Höttur er með trygga stöðu í efsta sæti fyrstu deildar karla í körfuknattleik þegar deildin fer í jólafrí. Blaklið Þróttar féllu niður um sæti eftir ósigra gegn HK.


Höttur burstaði ÍA á Akranesi í síðasta leiknum fyrir jólafrí á föstudag, 66-104. Ólíkt fyrri leik liðanna á Egilsstöðum í haust mætti ÍA til leiks með fullskipað lið en það skipti ekki öllu fyrir úrslit leiksins.

Höttur hafði örugga forustu allan leikinn og fengu allir leikmenn á skýrslu að spila. Aaron Moss skoraði 27 stig og tók 15 fráköst og Hreinn Gunnar Birgisson skoraði 19 stig.

Á sama tíma tapaði Fjölnir í toppslag á heimavelli fyrir Val. Höttur er með fjögurra stiga forskot á Fjölni sem hefur tapað þremur leikjum, líkt og Valur og Breiðablik, en leikið einum leik meira. Höttur hefur aðeins tapað einum leik og fer því með fjögurra stiga forskot inn í jólafríið.

Kvennalið Þróttar missti toppsætið þegar það tapaði tvívegis fyrir HK í Kópavogi. HK vann fyrri leikinn 3-0 í hrinum eða 25-19, 26-24 og 25-20.

Seinni leikurinn í gær fór í oddahrinu. Þróttur vann fyrstu tvær hrinurnar 24-26 og 21-25 þannig að farið var að fara um Íslandsmeistarana en þeir svöruðu 25-20, 25-15 og 15-10.

Þróttur og HK eru bæði með 25 stig en HK hefur spilað 9 leiki en Þróttur 12. Afturelding er í þriðja sæti með 24 stig eftir 9 leiki.

Karlaliðið lék einnig tvo leiki við HK og vann HK báða 3-0. Þróttur byrjaði einkar illa í fyrri leiknum og tapaði fyrstu hrinu 25-6. Þær næstu fóru 25-11 og 25-13. Hrinurnar í seinni leiknum fóru 25-18, 25-20 og 25-22.

HK og Stjarnan deila toppsætinu í karladeildinni með 20 stig eftir 9 leiki en Þróttur er í þriðja sæti með 15 stig úr 10 leikjum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.