Íþróttir: Þróttur í undanúrslit eftir oddahrinu

Þróttur Neskaupstað er komið í undanúrslit Íslandsmóts kvenna í blaki eftir sigur á Álftanesi á útivelli í gær í oddahrinu. Tvisvar þurfti upphækkanir til að ná fram úrslitum í hrinum.

Fyrstu hrinuna vann Álftanes 25-22 en Þróttur missti hana út úr höndum sér, eftir að hafa verið 11-17 yfir tókst heimaliðinu að minnka muninn í 15-17 og jafna í 18-18. Aðra hrinuna vann Þróttur svo nokkuð sannfærandi, 19-25.

Álftanes var yfir 16-10 í þriðju hrinu en Þróttur jafnaði í 23-23 og fékk tvisvar færi á að vinna hana í 23-24 og 26-27 áður en Álftanes kláraði hana loks 29-27. Þróttur svaraði með að vinna fjórðu hrinuna 21-25 og knýja fram oddahrinu.

Álftanes fór betur af stað, var yfir 7-3 en Þróttur jafnaði í 7-7 og tók síðan frumkvæðið. Liðið hafði tækifæri til að vinna hana í stöðuunni 12-14 en náði því loks 14-16.

Í undanúrslitum mætir Þróttur deildarmeisturum HK. Liði sem fyrr vinnur tvo leiki fer í úrslit. Fyrsti leikurinn verður í Kópavogi annað kvöld en næstu í Neskaupstað á laugardag. Oddaleikur verður í Kópavogi á þriðjudaginn í næstu viku ef þarf. Áhorfendur hafa nú verið leyfðir á blakleikjum.

Bikarkeppnin í knattspyrnu

Leiknir og Sindri eru komin í 32ja liða úrslit í bikarkeppni karla eftir leiki helgarinnar. Leiknir vann Hött/Huginn. Fyrsta markið skoraði Arek Grzelak úr víti á 33. mínútu en Izar Abella bætti við öðru á fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Varamaðurinn Mykolas Krasnovskis skoraði þriðja markið á 71. mínútu.

Sindri vann Fjarðabyggð 0-2. Abdul Bangura kom Sindra yfir á 57. mínútu en Ibrahim Barrie innsiglaði sigurinn á 88. mínútu.

Í bikarkeppni kvenna vann Sindra Einherja 5-0. Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir skoraði strax á fyrstu mínútu og þar með var tóninn sleginn því hún skoraði alls fjögur mörk í leiknum. Samira Suleman skoraði einnig mark á síðustu mínútu fyrri hálfleiks en hálfleiksstaðan var 2-0. Sindri mætir Fjarðabyggð/Hetti/Huginn í næstu umferð eftir tvær vikur.

Úrvalsdeildin í körfu

Höttur leikur mikilvægan leik fallbaráttu úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í kvöld þegar Þór Þorlákshöfn kemur í heimsókn. Leikurinn hefst klukkan 19:15.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.