Knattspyrna: Annar sigur Fjarðabyggðar í röð

Fjarðabyggð vann sinn annan sigur í sumar í annarri deild karla í knattspyrnu þegar liðið lagði ÍR um helgina og komst þar með upp úr botnsæti deildarinnar. Einherji vann mikilvægan sigur í fallbaráttu þriðju deildar en Höttur/Huginn tapaði toppslagnum þar.

Fjarðabyggð vann á miðvikudag sinn fyrsta sigur í sumar og um helgina kom sá annar þegar liðið vann ÍR á Eskjuvelli 3-1.

Vice Kendes kom Fjarðabyggð yfir eftir kortérs leik en gestirnir jöfnuðu á 32. mínútu. Miguel Angel kom Fjarðabyggð yfir á ný á 63. mínútu áður en Kendes skoraði aftur á þeirri 83..

Á sama tíma tapaði Leiknir Fáskrúðsfirði fyrir toppliði Þróttar Vogum 2-0. Fyrra markið kom þegar níu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og það seinna í uppbótartíma.

Með sigrinum komst Fjarðabyggð úr neðsta sætinu og er í 11. sæti með ellefu stig. Sjö stig eru í næsta lið, Leikni.

Í þriðju deild karla mættust Höttur/Huginn og Elliði í toppslag á Vilhjálmsvelli í gær. André Musa kom Hetti/Huginn yfir á 38. mínútu en gestirnir jöfnuðu þremur mínútum síðar.

Brynjar Þorri Magnússon kom Hetti/Huginn yfir strax aftur strax eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik en gestirnir skoruðu á 58. og 66. mínútu. Þess á milli fékk þjálfari þeirra, Elmar Örn Hjaltalín, rauða spjaldið.

Höttur/Huginn er enn í efsta sæti deildarinnar með 35 stig, fjórum stigum meira en Elliði eftir leiki helgarinnar. Bæði lið eiga fimm leiki eftir.

Á Vopnafirði vann Einherji mikilvægan 4-0 sigur á ÍH. Sveiflurnar hafa verið miklar hjá Hafnfirðingum sem í vikunni unnu Tindastól 8-0. Stefan Penchev skoraði fyrir Einherja á tólftu mínútu en Ismael Moussa setti síðan þrennu.

Útlit er fyrir að liðin muni berjast um að sleppa við að falla með Tindastóli. Einherji er í ellefta sæti með 16 stig eftir 18 leiki en ÍH í tíunda með 17 stig úr 17 leikjum

Kvennalið Einherja lauk keppni í annarri deild kvenna með 2-3 sigri á ÍR í Breiðholti þar sem sigurmörkin komu í blálokin. Benedett Szels kom Einherja yfir rétt fyrir hálfleik en ÍR-ingar komust yfir með mörkum á 48. mínútu og þeirri 85.. Gabríel Sóla Magnúsdóttir jafnaði fyrir Einherja tveimur mínútum síðar og sigurmarkið, sjálfsmark, kom á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Einherji er í 8. sæti deildarinnar með með 13 stig og markatöluna 22-22. Staðan gæti breyst því næstu lið á eftir, Hamar og Hamrarnir, mætast á föstudagskvöld. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann deildina og hefur keppni í úrslitakeppninni um næstu helgi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.