Knattspyrna: Átta mörk hjá FHL og Gróttu

Knattspyrnufélag Austfjarða er eftir leiki helgarinnar eitt örfárra liða í Íslandsmótinu í knattspyrnu sem ekki hefur enn tapað leik. Átta mörk voru skoruð þegar FHL vann Gróttu í Lengjudeild kvenna í gær.

KFA var fyrst austfirsku liðanna til að spila um helgina þegar liðið gerði markalaust jafntefli við KFG í Garðabæ á föstudagskvöld. KFA er enn ósigrað en hefur hins vegar gert mörg jafntefli, fimm í átta leikjum, þar af fjögur í síðustu fimm.

Samkvæmt athugun Austurfréttar eru fimm lið í Íslandsmótum kvenna og karla í knattspyrnu sem enn eru taplaus: Afturelding og Fjölnir í Lengjudeild karla, Árborg í 4. deild, RB í A-riðli 5. deildar og Haukar í 2. deild kvenna. KFA er sem stendur í þriðja sæti annarrar deildar karla með 14 stig úr átta leikjum.

Höttur/Huginn spilaði í sömu deild í gær og vann Þrótt Vogum 3-1. Gestirnir komust yfir eftir tíu mínútur en Víðir Freyr Ívarsson jafnaði rétt fyrir leikhlé. Dani Ndi skoraði á 63. mínútu og Víðir Freyr aftur á 76. mínútu. Liðið er í sjötta sæti með 11 stig.

Spyrnir vann KFR í B-riðli 5. deildar. Guðþór Hrafn Smárason og Heiðar Logi Jónsson skoruðu mörkin í fyrri hálfleik. Spyrnir er í öðru sæti riðilsins með 13 stig úr sjö leikjum. Önnur lið eiga leik til góða.

FHL vann Gróttu 5-3 í Lengjudeild kvenna í gær. Austfjarðaliðið gerði mjög vel í að vinna þann leik því Grótta var komin í 0-2 eftir 17 mínútur. Fyrst skoraði Barbara Perez á 37. mínútu og svo jafnaði Sofia Lewis úr víti á 44. mínútu.

Natalia Cooke kom FHL yfir á 48. mínútu en Gróttustelpur jöfnuðu í 3-3 úr víti á 57. mínútu. Það gerði ekki til, FHL fékk sína aðra vítaspyrnu og þá þriðju sem dæmd var í leiknum á 61. mínútu og úr henni skoraði Sofia. Natalie bætti við fimmta markinu á þriðju mínútu uppbótartíma. FHL er í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig úr sjö leikjum.

Einherji tapaði 1-2 fyrir ÍR í annarri deild kvenna á Vopnafirði í gær. ÍR-stelpur komust í 0-2 með mörkum á 27. og 57. mínútu en Claudia Maria minnkaði muninn á 65. mínútu. Einherji er í áttunda sæti með níu stig úr sjö leikjum.

Mynd: Jón Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.