Knattspyrna: Einherji skoraði sjö mörk gegn KH

Síðustu vikur hafa verið úrkomusamar á Austurlandi og á laugardag rigndi mörkum þegar Einherji vann KH í annarri deild kvenna í knattspyrnu. Knattspyrnufélag Austfjarða er eitt þriggja liða sem er enn ósigrað á Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Einherji burstaði Knattspyrnufélagið Hlíðarenda, úr Reykjavík, 7-2 á Vopnafirði á laugardag en staðan í hálfleik var 4-1. Karólína Dröfn Jónsdóttir skoraði fjögur mörk, Viktoria Szeles tvö og þær Oddný Karólína Hafsteinsdóttir og Claudia Maria Daga Merion sitt markið hvor. Einherji er í 8. sæti með 15 stig.

KFA hefur leikið tólf leiki án taps í annarri deild karla. Afturelding í næst efstu deild og RB í fimmtu deild eru hin liðin tvö sem ekki hafa enn tapað leik í Íslandsmótinu. KFA hefur hins vegar gert sjö jafntefli enda voru úrslit leiksins gegn Þrótti Vogum í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag 1-1. Gestirnir komust yfir þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum en Esteban Selpa jafnaði úr víti á 82. mínútu.

KFA er áfram í öðru sæti deildarinnar með 22 stig eins og Dalvík/Reynir. Norðanliðið hefur verið á miklu skriði og unnið fimm leiki í röð. Þjálfari þess er Dragan Stojanovic sem áður þjálfaði Fjarðabyggð.

Víkingur Ólafsvík er í efsta sæti með 26 stig. Liðið vann Hött/Huginn 3-0 um helgina fyrir vestan. Austanliðið er í 8. sæti deildarinnar með 14 stig.

Spyrnir tók á móti Kría í B-riðli 5. deildar karla á laugardag í leik sem gestirnir unnu 0-3. Arnór Snær Magnússon fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða á 64. mínútu. Staðan þá var 0-2.

Mynd: Halldór Sigurðsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.