Knattspyrna: Erfið helgi hjá austfirsku liðunum

Ekkert austfirsku liðanna fimm náði stigi í Íslandsmótinu í knattspyrnu um síðustu helgi. Huginn og Fjarðabyggð fengu á sig sigurmörk í uppbótartíma.


Huginn sótti Magna heim í toppslag annarrar deildar á Grenivík. Stefán Ómar Magnússno og Gonzalo Leon komu Huginn í 0-2 strax á fyrstu tíu mínútum leiksins. Magnamenn minnkuðu muninn um miðjan hálfleikinn og jöfnuðu á 73. mínútu en strax mínútu síðar kom Kifah Mourad Huginn yfir á ný.

Magnaliðið, sem er efst í deildinni, var ekki þar með að baki dottið heldur jafnaði þremur mínútum fyrir leikslok og skoraði sigurmarkið á fimmtu mínútu uppbótartíma. Huginn er eftir sem áður í þriðja sæti deildarinnar. Eftir sex leikja sigurgöngu hefur hægst á Huginn og liðið ekki unnið þrjá leiki í röð.

Eftir þrjá sigurleiki í röð tapaði Fjarðabyggð heima fyrir Víði 2-3. Víðir var 0-2 yfir í hálfleik en þeir Milos Vasiljevic og Hafsteinn Gísli Valdimarsson jöfnuðu fyrir Fjarðabyggð. Jöfnunarmark Hafsteins Gísla kom tveimur mínútum fyrir leikslok. Gestirnir skoruðu hins vegar sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma og í kjölfarið fékk Stefán Þór Eysteinsson, fyrirliði Fjarðabyggðar, tvö gul spjöld og þar með rautt.

Höttur sótti Völsung heim á Mærudögum, bæjarhátíð Húsvíkinga. Liðið byrjaði vel og var 2-0 yfir í hálfleik með mörkum Steinars Arons Magnússonar og Jóhanns Vals Clausen. Höttur var hins vegar kafsigldur með fjórum mörkum Völsunga í seinni hálfleik.

Einherji tapaði fyrir Ægi 3-1 í þriðju deildinni. Sverrir Hrafn Friðriksson skoraði eina mark Einherja tíu mínútum fyrir leikslok. Eftir góða byrjun hefur Einherji leikið fjóra leiki í röð án sigurs. Síðasti sigurleikurinn var gegn Fjallabyggð 30. júní.

Leiknir Fáskrúðsfirði er áfram í neðsta sæti fyrstu deildar en liðið tapaði 1-0 fyrir HK í Kópavogi. Liðið tekur á móti Leikni Reykjavík á morgun í leik sem hefst klukkan 17:45.

Höttur og Huginn mætast í Austfjarðaslag á Fellavelli klukkan 19:15 og á sama tíma heimsækir Fjarðabyggð Njarðvík. Um leið hefst leikur Einherja og Völsungs í annarri deild kvenna.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.