Knattspyrna: Fyrsti sigur Hattar/Hugins í sumar

Höttur/Huginn vann sinn fyrsta leik í annarri deild karla í sumar meðan KFA lék sinn fjórða leik án taps. FHL féll úr leik gegn úrvalsdeildarliði FH í bikarkeppni kvenna og Einherji vann sinn annan leik í röð í annarri deild kvenna.

Aðra vikuna í röð var leik Hattar/Hugins frestað þar sem ekki var fært með flugi milli landshluta á laugardegi. Þess í stað tók liðið á móti Haukum á Fellavelli á sunnudag.

Alberto Lopez kom Hetti/Huginn yfir strax á annarri mínútu en gestirnir jöfnuðu á 19. mínútu. Þá tók við góður kafli heimaliðsins sem byrjaði á sjálfsmarki á 24. mínútu áður en Kristján Jakob Ásgrímsson skoraði það þriðja á 37. mínútu. Tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Almar Daði Jónsson skoraði sitt fyrsta mark í Íslandsmóti í fimm ár. Haukar minnkuðu muninn síðar í 4-2 en komust ekki nær.

KFA spilaði gegn Dalvík/Reyni á föstudag. Norðlendingar komust yfir á 28. mínútu en Marteinn Már Sverrisson jafnaði fjórum mínútum fyrir leikhlé. Povilas Krasnovskis kom KFA yfir á 70. mínútu. Dalvík/Reynir jafnaði úr vítaspyrnu á lokamínútu venjulegs leiktíma og Mykolas Krasnovskis fékk sitt annað gula spjald. Í uppbótartíma fékk Einar Andri Bergmasson úr liðsstjórn KFA rautt.

KFA er í þriðja sæti deildarinnar með 8 stig úr fjórum leikjum en Höttur/Huginn í því áttuna með fjögur stig. Liðin mætast á föstudagskvöld.

FHL féll úr leik í 16 liða úrslitum bikarkeppni kvenna gegn úrvalsdeildarliði FH en liðin mættust í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Mörk FH komu rétt sitt hvoru megin við leikhlé.

Einherji vann Álftanes á útivelli 0-2. Markalaust var í hálfleik en Borghildur Arnarsdóttir kom Einherja yfir 0-1 eftir um klukkutímaleik. Claudia Maria Daga Merino fékk sitt seinna gula spjald fimm mínútum síðar en það breytti því ekki að Violeta Mitul skoraði annað mark Vopnafjarðarliðsins á 75. mínútu. Liðið er í fjórða sæti annarrar deildar með níu stig úr fimm leikjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.