Knattspyrna: Höttur/Huginn fær Fylki í heimsókn

Höttur/Huginn fær úrvalsdeildarlið Fylkis í heimsókn í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu. Liðið tryggði sér sæti þar með sigri á Völsungi um helgina meðan KFA tapaði fyrir Þór Akureyri. FHL lauk keppni í Lengjubikar kvenna með sigri.

Dregið var í næstu umferð nú í hádeginu. Höttur/Huginn leikur í annarri deild, tveimur deildum neðar en Fylkir. Leikið verður miðvikudag og fimmtudag í næstu viku – það er síðasta vetrardag og sumardaginn fyrsta.

Höttur/Huginn vann Spyrni í fyrstu umferð og tók um helgina á móti Völsungi í annarri umferð. Höttur vann 2-0. Rafael Cabella skoraði fyrra markið á 76. mínútu og Valdimar Brimir Hilmarsson það seinna á 81. mínútu úr víti.

KFA sat hjá í fyrstu umferð og fékk sterkan andstæðing, Þór Akureyri úr fyrstu deild, í Boganum í gær. Þór var 3-0 yfir í hálfleik og var búið að bæta við fjórða markinu þegar Tómas Atli Björgvinsson minnkaði muninn á 62. mínútu. Þórsarar bættu svo við einu marki enn og unnu 5-1.

FHL lauk keppni í Lenjubikar kvenna með tveimur leikjum á höfuðborgarsvæðinu. Sá fyrri var á föstudagskvöld, 2-2 jafntefli gegn Fram. Samantha Smith kom FHL yfir á fjórðu mínútu en Fram jafnaði á 8. mínútu. Emma Hawkins kom FHL aftur yfir á 42. mínútu en Fram jafnaði aftur um miðjan seinni hálfleik. Pálmi Þór Jónasson, aðstoðarþjálfari FHL, er þjálfari Fram ásamt Óskari Smára Haraldssyni. FHL vann síðan ÍR 0-1 í gær. Samantha skoraði sigurmarkið á 22. mínútu.

FHL fór ekki vel af stað í keppninni en efldist í kringum páskana þegar erlendir leikmenn komu til liðsins. Samantha hefur reynst öflug og skoraði í öllum þremur leikjum sínum. FHL hefur lokið leik með 8 stig úr sjö leikjum í sjötta sæti. Liðið gæti enn fallið um sæti því HK og Grótta, sem eru fyrir neðan, eiga leik eftir.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.