Knattspyrna: Höttur/Huginn úr leik eftir framlengingu

Knattspyrnufélag Austfjarða tryggði sig örugglega áfram í bikarkeppni karla í knattspyrnu með stórsigri á Spyrni á skírdag. Höttur/Huginn féll úr leik eftir framlengdan leik við Sindra.

KFA var komið í 5-0 gegn Spyrni eftir 33 mínútur. Heiðar Snær Ragnarsson skoraði strax á þriðju mínútu en svo skoruðu þeir Marteinn Már Sverrisson og Danilo Milenkovic tvö mörk hvor. Strax eftir seinna mark Danilos minnkaði Brynjar Árnason muninn út vítaspyrnu.

Í seinni hálfleik fullkomnaði Marteinn Már þrennuna áður en William Suarez skoraði sjöunda mark Spyrnis og lokatölurnar 7-1.

Höttur/Huginn komst þrisvar yfir í leik sínum gegn Sindra á laugardag en glopraði forustunni alltaf niður. Eiður Orri Ragnarsson skoraði fyrst á 23. mínútu en Ivan Paponja jafnaði fjórum mínútum síðar. Aftur kom Björgvin Stefán Pétursson Hetti/Huginn yfir á 42. mínútu en Sindri jafnaði á 54. mínútu, aftur með marki Paponja.

Alberto Lopez kom Hetti/Huginn yfir í þriðja skiptið á 81. mínútu. Sú forusta entist í fjórar mínútur, þá jafnaði Kristinn Justiniano Snjólfsson og tryggði Sindra framlengingu.

Þar skoraði Abdul Bangura eina markið á lokamínútu fyrri hluta framlengingar og kom Sindra yfir í eina skiptið í leiknum. Það var jafnframt eina forskotið sem entist. Kristján Jakob Ásgrímsson fékk rauða spjaldið á 119. mínútu vegna tveggja áminninga í seinni hluta framlengingarinnar.

Kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis nýtti páskahelgina í æfingaferð til Spánar. Það mætir Víkingi Reykjavík í bikarnum um næstu helgi. Næsta umferð hjá körlunum verður í kringum sumardaginn fyrsta.

Þá má bæta því við að Dagur Ingi Valsson, fyrrum leikmaður Leiknis, skoraði sigurmark Keflavíkur gegn Fylki í uppbótartíma í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í gærkvöldi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.