Knattspyrna: KFA aftur á sigurbraut með mörkum undir lokin

Knattspyrnufélag Austfjarða vann á ný eftir þrjá leiki án sigurs þegar liðið lagði KFG á laugardag. Höttur/Huginn á enn möguleika að læðast inn í toppbaráttu annarrar deildar karla eftir sigur á Þrótti í Vogum. Einherji tapaði í annarri deild eftir sjö sigurleiki í röð en toppbarátta annarrar deildar kvenna er enn galopin.

KFG komst yfir í Fjarðabyggðarhöllinni á 39. mínútu. Marteinn Már Sverrisson jafnaði á 71. mínútu og Esteban Selpa skoraði sigurmarkið á 81. mínútu.

Höttur/Huginn vann á sama tíma Þrótt í Vogum. Matheus Bettio skoraði bæði mörkin, hið fyrra á 32. mínútu en það seinna úr víti á 64. mínútu.

KFA vann þar með á ný eftir þrjá leiki án sigurs, tvö töp og eitt jafntefli. Liðið er í öðru sæti deildarinnar með 35 stig en Dalvík/Reynir er í efsta sætinu með 38 stig. Á eftir fylgja ÍR með 34 stig, Víkingur Ólafsvík með 32 stig, Höttur/Huginn með 30 stig og Þróttur með 29 stig.

Þrjár umferðir eru eftir af mótinu. Miðað við það virðast Dalvík/Reynir, KFA og ÍR berjast um sætin tvö í næstu deild en þær miklu sveiflur sem hafa verið milli umferða þýða að ekki er hægt að útiloka enn liðin sem fylgja þar á eftir.

Átta mörk í fyrsta deildarleiknum á Djúpavogi í 16 ár


Spyrnir lauk keppni í B-riðli fimmtu deildar karla með 4-4 jafntefli gegn Samherjum. Leikið var á Djúpavogi í fyrsta sinn í Íslandsmóti í meistaraflokki síðan árið 2007 en þá sendi Neisti síðast lið til keppni.

Gestirnir úr Eyjafirði voru komnir í 0-3 eftir 20 mínútu en Spyrnir náði stöðunni niður í 2-3 fyrir leikhlé. Finnur Huldar Gunnlaugsson skoraði á 35. mínútu og Hrafn Sigurðsson á þriðju mínútu uppbótartíma. Óliver Árni Ólafsson jafnaði á 80. mínútu, þeirri sömu og fækkaði í liði Samherja þegar einn þeirra hlaut sitt seinna gula spjald.

Þeir komust þó aftur yfir á 82. mínútu áður en Guðþór Hrafn Smárason jafnaði í 4-4 á þriðju mínútu uppbótartíma. Spyrnir endaði í 6. sæti riðilsins með 23 stig.

Réðu ekki við þá markahæstu


Í Lengjudeild kvenna réði FHL ekkert við markahæsta leikmann deildarinnar. Hannah Abraham skoraði öll mörk Gróttu í leik sem endaði 4-2 fyrir Seltjarnarnesliðið. Hanna skoraði tvö mörk á fyrstu tíu mínútunum og það þriðja á 52. mínútu.

Natalie Cooke minnkaði muninn á 62. mínútu en Hannah var aftur á ferðinni á 78. mínútu. Halldóra Birta Sigfúsdóttir skoraði annað mark FHL á 82. mínútu. FHL er í 8. sæti deildarinnar með 17 stig úr 16 leikjum. Liðið á tvo leiki eftir.

Rautt spjald á fyrirliðann vendipunkturinn


Efsta lið annarrar deildar kvenna batt enda á sigurgöngu Einherja. Claudia Maria Daga Merino kom Einherja yfir á 2. mínútu og Viktoria Szels bætti við öðru á 29. mínútu. ÍR minnkaði muninn á 29. mínútu og jafnaði á 70. mínútu.

Vendipunktur leiksins var þegar Viktoria, sem er fyrirliði Einherja, fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða á 83. mínútu. ÍR komst yfir á 86. mínútu og skoraði fjórða marki á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Einherji er núna í 6. sæti með 30 stig eftir 17 leiki og á þrjá eftir. ÍR hefur náð nokkurri forustu í deildinni með 39 stig en hefur leikið 18 leiki. Á eftir koma ÍA, Haukar, Völsungur, Fjölnir og ÍH með 29-32 stig sem þýðir að Einherji á enn möguleika í toppbaráttunni.

Marteinn Már jafnar fyrir KFA. Mynd: Jón Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.