Knattspyrna: KFA komið upp í annað sætið

Lið KFA er komið upp í annað sætið í annarri deild karla eftir fjóra sigurleiki í röð. Liðið vann Þrótt Vogum um helgina í miklum baráttuleik.

Staðan KFA var vænleg í byrjun seinni hálfleiks þegar liðið var 0-3 yfir. Tómas Atli Björgvinsson skoraði á 22. mínútu, Eiður Orri Ragnarsson á 45+3 og Marteinn Már Sverrisson á 52. mínútu.

Heimamenn áttu þó enn inn áhlaup, skoruðu á 73. og 84. mínútu. Leikurinn varð nokkuð harður í seinni hálfleik, átta gul spjöld fóru á loft. Þá eru ekki talin með þau tvö sem þjálfari Þróttar fékk í leikslok, sem þýða rautt spjald og leikbann.

Með sigrinum komst KFA upp fyrir Víking Ólafsvík, sem aðeins hefur hikstað í síðustu leikjum. Á sama tíma hefur KFA verið á mikilli siglingu, hefur unnið fjóra leiki í röð og er með 25 stig úr 12 leikjum.

Höttur/Huginn tók á móti Haukum á Egilsstöðum. Haukarnir skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik, Sæbjörn Guðlaugsson skoraði á fyrstu mínútu uppbótartíma sem varð frekar langur því Haukar skoruðu sitt þriðja mark á sjöundu mínútu hans. Höttur/Huginn er í 8. sæti með 15 stig. Í spilaranum hér að neðan má sjá helstu atvik leiksins.

Spyrnir spilaði tvo leiki í 5. deild karla syðra um helgina. Það vann fyrst Þorlák 1-3 í leik þar sem Arnór Snær Magnússon skoraði í fyrri hálfleik en þeir Ármann Davíðsson og Hrafn Sigurðsson með stuttu millibili snemma í seinni hálfleik.

Í gær tapaði Spyrnir hins vegar 3-1 gegn Álafossi. Ármann skoraði eina markið er hann kom Spyrni yfir á tólftu mínútu.

Austfirsku kvennaliðin voru bæði í fríi um helgina.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.