Knattspyrna: KFA yfirspilaði Völsung í Lengjubikarnum

Knattspyrnufélag Austfjarða hefur unnið alla þrjá leiki sína það sem af er Lengjubikarnum nokkuð örugglega. Austfirsku kvennaliðin byrja ekki vel.

KFA tók á móti Völsungi um helgina og vann 6-2. Marteinn Már Sverrisson skoraði strax á 6. mínútu, síðan Þór Sigurjónsson á 10. mínútu og loks Tómas Atli Björgvinsson á 16. mínútu.

Húsavíkurliðið minnkaði muninn fyrir leikhlé en í seinni hálfleik bættu Marteinn og Þór við mörkum auk þess sem Ólafur Bernharð Hallgrímsson skoraði sjötta markið. Völsungar skoruðu í uppbótartíma.

KFA er efst í C-riðli B-deildar karla með þrjá sigra úr þremur leikjum. Höttur/Huginn leikur í sama riðli og gerði um helgina sitt annað jafntefli í röð þegar liðið tók á móti Magna, 1-1. Heiðar Logi Jónsson skoraði fyrir Hött/Huginn um miðjan fyrri hálfleik en gestirnir svöruðu um miðjan seinni hálfleik.

Austfirsku kvennaliðin fara ekki vel af stað í keppninni. FHL tapaði 0-5 fyrir Aftureldingu um helgina. Einherji, sem spilar heimaleiki sína í Boganum á Akureyri, tapaði 1-4 fyrir KR í C-deild. Claudia Maria Marino skoraði mark Einherja þegar hún jafnaði skömmu fyrir leikhlé.

Úr leik Hattar/Hugins gegn Magna á laugardag. Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.