Knattspyrna: Sigrar hjá Spyrni og Einherja

Spyrnir í fimmtu deild karla og Einherji í annarri deild kvenna voru þau austfirsku lið sem unnu leiki sína á Íslandsmótinu í knattspyrnu um helgina.

Spyrnir burstaði KM 6-0 á Fellavelli í gær. Heiðar Logi Jónsson skoraði tvö mörk en þeir Eyþór Magnússon, Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson, Þór Albertsson og Brynjar Árnason sitt markið hver. Spyrnir var 2-0 yfir þegar markverði gestanna var vikið af velli og strax í kjölfarið kom þriðja markið.

Bæði Austfjarðaliðin í annarri deild karla gerðu jafntefli. Höttur/Huginn markalaust á heimavelli við Víking Ólafsvík, KFA 1-1 við Þrótt í Vogum. Danilo Mienkovic jafnaði fyrir KFA eftir um klukkutíma leik.

FHL tapaði 1-0 fyrir Grindavík í Lengjudeild kvenna. Leikurinn fór fram við erfiðar veður- og vallaraðstæður en markið var skorað um tuttugu mínútum fyrir leikslok.

Einherji vann hins vegar KH 1-4 að Hlíðarenda í annarri deild kvenna. Karólína Dröfn Jónsdóttir kom Einherja yfir á 14. mínútu með eina marki fyrri hálfleiks. Á 54. mínútu skoraði Amanda Lind Elmarsdóttir annað mark úr víti, Viktoría Szeles þriðja markið á 74. mínútu og loks kom sjálfsmark fimm mínútum fyrir leikslok áður en heimaliðið náði að minnka muninn skömmu síðar.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.