Knattspyrna: Sigurmörk Spyrnis eftir 100 mínútna leik

Spyrnir snéri við leik sínum gegn Úlfunum í 5. deild karla um helgina þegar komið var fram í tíundu mínútu uppbótartíma. FHL heldur efsta sætinu í Lengjudeild kvenna.

Spyrnir spilaði tvo leiki á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Liðið tapaði fyrst gegn Álftanesi 5-2 þar sem Ármann Davíðsson og Jakob Jóel Þórarinsson skoruðu mörk.

Næst var leiki gegn Úlfunum þar sem heimaliðið komst yfir á síðustu mínútu fyrir hálfleiks. Við það sat þar til á elleftu mínútu uppbótartíma þegar Almar Aðalsteinsson jafnaði. Fjórum mínútum síðar skoraði Ármann sigurmarkið. Spyrnir er í fimmta sæti með tíu stig.

Í annarri deild karla tapaði Höttur/Huginn 4-2 fyrir Víkingi Ólafsvík. Staðan var 1-1 í hálfleik eftir að Martim Cardoso hafði jafnaði fyrir Hött/Huginn. Björgvin Stefán Pétursson minnkaði muninn í 3-2 með marki á þriðju mínútu uppbótartíma en enn var tími fyrir eitt mark í viðbót fyrir heimamenn.

KFA tapaði 1-2 fyrir KFG á heimavelli. Öll mörkin voru skoruð í seinni hálfleik. Birkir Ingi Óskarsson minnkaði muninn fyrir KFa á annarri mínútu uppbótartíma. KFA er í fimmta sæti með 13 stig en Höttur/Huginn í því níunda með níu stig.

FHL heldur áfram á beinu brautinni í Lengjudeild kvenna en liðið vann Grindavík 0-6 í Reykjavík um helgina. Grindavík hefur til þessa verið eitt af liðunum í toppbaráttunni.

Staðan í hálfleik var 0-1 eftir mark Deju Sandoval á 24. mínútu. Emma Hawkins skoraði þrennu í seinni hálflik og þær Samantha Smith og Christa Björg Andrésdóttir sitt markið hvor. FHL heldur því efsta sæti deildarinnar aðra vikuna í röð og er tveimur stigum á undan HK.

Einherji vann Augnablik 4-2 á Vopnafirði um helgina. Staðan var 2-1 í hálfleik en Karólína Dröfn Jónsdóttir skoraði bæði mörk Einherja. Hún bætti svo við þriðja marki sínu áður en Borghildur Arnardóttir skoraði fjórða mark Einherja. Liðið er í 6. sæti með 13 stig.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.