Körfubolti: Höttur ekki í vandræðum með botnlið Hamars

Höttur vann í gærkvöldi nokkuð þægilegan 93-80 sigur á botnliði Hamars úr Hveragerði í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Hamarsliðið hefur ekki unnið leik á leiktíðinni en Höttur er í mikilli baráttu um að komast í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Eftir að Hamar skoraði fyrstu körfu leiksins gaf fyrirliðinn Adam Eiður Ásgeirsson tóninn með að setja niður þriggja stiga körfu. Höttur gaf Hamri ekkert svigrúm og komst fljótt í 17-6. Hamar minnkaði þó muninn niður í 22-20 áður en leikhlutinn var búinn.

Höttur náði fljótt um tíu stiga forskoti á ný og bætti svo hraustlega í þegar það skoraði átta stig í röð. Þar með breyttist staðan úr 38-29 í 46-29 og staðan orðin snúin fyrir Hamar. Í hálfleik var staðan 48-33.

Höttur hélt þessari forustu í seinni hálfleik. Eftir þriðja leikhluta var staðan 70-53 og forskotið var aldrei í hættu í fjórða leikhluta. Bæði lið gáfu leikmönnum sem sjaldnar spila tækifæri undir lokin. Þau voru þó bæði frekar þunnskipuð, í tilfelli Hattar vegna veikinda. David Ramos skoraði 25 stig fyrir Hött en Adam Eiður 23.

En það sem skiptir máli er staðan í deildinni og eftir leikina í gærkvöldi er Höttur í 6. sæti með 18 stig, jafn mörg og Álftanes og tveimur meira en Stjarnan og Tindastóll. Stjarnan á þó leik til góða. Sex umferðir eru eftir af deildinni og er orðið tölfræðilega útilokað að Höttur falli, sem er árangur í sögulegu samhengi, því þegar liðið hélt sér uppi í fyrsta sinn í fyrra tryggðist það í næst síðustu umferð.

Mynd: Daníel Cekic

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.