Körfubolti: Höttur ekki í vandræðum með ryðgaða Selfyssinga

Höttur treysti stöðu sína á toppi fyrstu deildar karla í körfuknattleik þegar liðið vann Selfoss örugglega 85-64 á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Selfyssingar virtust nokkuð ryðgaðir í leiknum þar sem liðið sat hjá í fyrstu umferð nýs árs og höfðu því ekki spilað keppnisleik í meira en mánuð.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt og liðin skiptust á að skora en um miðjan leikhlutann seig Hattarliðið frá og var 22-11 yfir að honum loknum. Talsvert var um átök og leikmenn liðanna fengu alls 11 villur í fyrsta leikhlutanum.

Höttur hélt áfram að auka muninn í öðrum leikhluta þannig að staðan í hálfleik var 46-25. Selfyssingar sköpuðu sér ágæt skotfæri en nýtingin var ekki góð. Þetta virtist fara í skapið á þeim og vart varð við pirring í þeirra röðum. Brynjar Grétarsson átti ágætan fyrri hálfleik hjá Hetti og setti niður fjórar þriggja stiga körfur.

Seinni hálfleik var svipaður og sá fyrri. Hattarmenn höfðu góð tök á leiknum og Selfyssingar virtist hreinlega ekki hafa trú á verkefninu. Undir lokin fengu yngri leikmenn Hattar tækifæri á að spreyta sig og stóðu sig vel.

Um miðjan þriðja leikhluta sauð upp úr þegar Svavar Ingi Stefánsson, leikmaður Selfoss, virtist kýla Spánverjann David Ramos hjá Hetti í gólfið. Dómarar leiksins skoðuðu atvikið á myndbandi, þar sem það leit ekki jafn illa út og við fyrstu sýn, áður en þeir dæmdu óíþróttamannslega villu á Svavar Inga. Viðar Örn Hafsteinsson uppskar tæknivillu fyrir að deila skoðun sinni á brotinu.

Leikurinn var ekki sá mest spennandi sem Hattarliðið hefur spilað í vetur, en það var gaman að fylgjast með leikmönnum reyna að toppa hvern annan í troðslum. Munurinn á liðunum var þó fyrst og fremst þriggja stiga nýtingin, 35% hjá Hetti og 21% hjá Selfossi.

Marcus var stigahæstur hjá Hetti, skoraði 22 stig og fiskaði sjö villur á Selfyssinga, sem réðu illa við hann undir körfunni. Í þeirra liði var Christian Cunningham öflugastur með 26 stig og 15 fráköst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.