Körfubolti: Höttur hafði Keflavík í framlengingu

Höttur heldur efsta sætinu í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir 120-115 sigur á Keflavík í gærkvöldi. Höttur var undir lengst úr leiknum en snéri við taflinu rétt undir lok venjulegs leiktíma. Liðið var síðan sterkari í framlengingunni þótt þrír leikmenn liðsins færu út af með fimm villur.

Liðin eru þekkt fyrir ólíkan leikstíl. Keflavíkurliðið sækir hratt og gerði það frá byrjun í gær, markmiðið virtist vera að leyfa Hetti aldrei að stilla upp í vörn. Sá flýtir kostaði hins vegar að skotin urðu stundum fullótímabær og því slök.

Hattarmenn voru hins vegar yfirvegaðir í sínum aðgerðum, komu boltanum undir körfuna og fengu þannig góð færi. Til viðbótar hittu þeir vel og voru með 50% hittni eftir fyrsta leikhluta utan þriggja stiga línunnar á móti 18% Keflvíkinga. Það þýddi að Höttur var yfir eftir hann 32-27.

Keflavík mætti í annan leikhluta með ákafari varnarleik þannig leið Hattar að körfunni varð erfiðaðri. Á sama tíma fóru Hattarmenn að lenda á eftir í vörninni og fengu á sig villur, sem kostaði þá pirring og agaleysi. Villur þeirra urðu alls tíu í leikhlutanum. Þetta varð til þess að Keflavík leiddi í hálfleik, 52-58.

Þriðji og fyrri hluti fjórða leikhluta spiluðust á svipaðan hátt. Höttur átti áhlaup en hvenær sem liðið átti möguleika á að jafna eða komast yfir svöruðu Keflavíkingar og héldu þannig aftur af heimamönnum. Leikurinn var afar skemmtilegur á að horfa því bæði lið skoruðu frábærar körfur.

Þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir fór Höttur loks að saxa á forskotið. Liðið jafnaði og komst yfir 103-100 þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir. Dæmd var tæknivilla á Wendell Green, langstigahæsta mann Keflavíkur, fyrir mótmæli við dómara og Obie Trotter skoraði úr vítinu og bætti síðan við þriggja stiga körfu.

Keflavík svaraði því, jafnaði í 103-103. Hattarmenn fengu tvær sóknir síðustu mínútuna og Keflavík eina en hvorugu liðinu tókst að nýta það.

Hattarmenn skoruðu fyrstu þrjú stigin í framlengingunni og voru ávallt skrefinu á undan þótt þeir týndust út af einn af öðrum með fimm villur. Fimm leikmenn liðsins voru með fjórar villur þegar leikhlutinn hófst og út af fóru Courvoisier McCauley, Gustav Surh-Jessen og Nemanja Knezevic. En þrátt fyrir þetta andstreymi hélst aginn í leik Hattar og það skilaði að lokum sigrinum.

McCauley var stigahæstur hjá Hetti með 28 stig, auk þess að taka 12 fráköst. Matej Karlovic skoraði 17 stig, en fyrir leikinn var óvíst hvort hann myndi spila vegna meiðsla. Hann lék í tæpar 27 mínútur. Wendell Green fór fyrir sóknarleik Keflavíkur, skoraði 32 stig.

„Þetta var þrususkemmtilegur leikur og mikill hávaði í áhorfendum. Það voru læti, tekist á og alls konar barátta í gangi,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Höttur hefur í báðum leikjum sínum í ár skorað meira en 100 stig í venjulegum leiktíma. Þá voru í gær skoruð yfir 200 stig í venjulegum leiktíma. Það hefur einu sinni gerst í Hattarleik á síðustu tveimur tímabilum í úrvalsdeild, gegn Hamri síðasta haust en það lið var þekkt fyrir mikla sókn og litla vörn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.