Körfubolti: Höttur hefur tímabilið gegn Haukum

Höttur mætir Haukum í Hafnarfirði í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í kvöld. Mikið er undir í leiknum miðað við að liðunum er spáð fallbaráttu. Nokkrar breytingar hafa orðið á Hattarliðinu í sumar.

Þrátt fyrir að Höttur hafi komist í úrslitakeppnina í vor, í fyrsta skiptið í sögu félagsins, er liðinu engu að síður spáð fallbaráttu í spá fjölmiðla og liðanna í deildinni sem birt var fyrir viku.

Í fjölmiðlaspánni lendir Höttur í næst neðsta sæti, aðeins stigi á eftir Haukum. Í spá félaganna hafa liðin sætaskipti. Nýliðar ÍR eru neðstir í báðum spáð og hitt nýja liðið, KR, skammt fyrir ofan ásamt Njarðvík.

Nokkrar breytingar hafa orðið á Hattarhópnum í sumar. Mögulega er sú stærsta að Einar Árni Jóhannsson lét af störfum þjálfara eftir síðasta tímabil. Í stað hans er kominn Salvador Guardia frá Spáni. Á Egilsstöðum hittir hann fyrir litla bróður sinn, David Guardia sem leikið hefur með Hetti frá árinu 2018. David verður þó ekki með í kvöld þar sem hann tekur enn út leikbann vegna brots í úrslitakeppninni.

Salvador skrifaði í sumar undir tveggja ára samning við Hött. Hann var frá 2020-23 aðstoðarþjálfari og yfirmaður unglingastarfs Baloncesto Fuenlabrada sem þann tíma var í efstu deild. Hann var sjálfur atvinnumaður í um 20 ár og hefur síðan verið í ýmsum stjórnunarstöðum, auk þess að lýsa leikjum í sjónvarpi.

Bandaríkjamaðurinn Deontaye Buskey er farinn til Frakklands en í hans stað er kominn Courvoisier McCauley, 26 ára skotbakvörður. Hann lauk háskólaferli sínum með Indiana State árið 2023 en spilaði síðasta vetur í Lúxemborg.

Eysteinn Bjarni Ævarsson hefur snúið austur á ný. Hann er uppalinn Hattarmaður sem spilaði síðast með liðinu 2020-21. Hann lék síðustu tvö ár með Álftanesi. Að auki á hann að baki tímabil með Keflavík og Stjörnunni. Á móti er Gísli Þórarinn Hallsson farinn aftur í Sindra.

Þá hefur nýr Dani, Adam Heede-Andersen, bæst í hópinn. Hann er skotbakvörður sem undanfarin fimm ár hefur spilað með Værløse. Þar áður spilaði hann í bandarískum háskóla. Hann vann sig í ár inn í danska landsliðshópinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.