Körfubolti: Læti þegar Höttur tapaði fyrir Grindavík

Körfuknattleikssamband Íslands hefur til skoðunar atvik sem varð í hálfleik leiks Grindavíkur og Hattar þegar DeAndre Kane og Courvoisier McCauley lenti saman. Grindvíkingar unnu leikinn sjálfan með yfirburðum.

Grindavík komst í 11-0 og rúmar þrjár mínútur liðu áður en Hetti komst að koma niður körfu, sem var eitt vítaskot. Grindavík var 31-9 yfir eftir fyrsta leikhluta og 56-33 í hálfleik.

Atvikið sem yfirtekið hefur alla umræðu í leiknum varð þegar liðin voru komin aftur út á völlinn til að hita upp fyrir seinni hálfleikinn. Hattarmenn eru þar að skjóta á körfu sína þegar Kane kemur út á völlinn og röltir rólega að McCauley.

Einhver orðaskipti virðast þeirra á milli og Kane heldur í humátt á eftir McCauley í skot. Hattarmaðurinn snýr sér við og virðist ota fingri að Kane sem slær frá sér og virðist fara í andlit McCauley. Við þetta drífur aðra leikmenn að.

Dómarar leiksins voru enn inni í klefa en komu fljótlega á vettvang. Ekki urðu frekari handalögmál milli liðanna. Atvikið náðist á upptöku hjá Stöð 2. Í samtali við Vísi í morgun staðfesti framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands að atvikið væri til skoðunar.

Í viðtölum við Stöð 2 eftir leikinn sakaði hvor leikmaðurinn hinn um að hafa kýlt sig. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, sagði tíma til kominn að tekið yrði á Kane sem hefði verið „djöfulsins bulli“ í eitt og hálft ár sem „ekkert tengdist körfubolta“.

Lætin breyttu engu um einstefnu leiksins. Grindavík var 81-53 yfir eftir þriðja leikhluta og vann loks leikinn 113-84. Adam Heede-Andersen var stigahæstur Hattar með 21 stig. Viðar sagði eftir leikinn að Hattarmenn hefðu í leiknum verið flatir og ósamstilltir og ekki náð að kveikja neinn neista.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.