Körfubolti: Mikilvægur sigur á KR í þéttri baráttu

Höttur vann KR í gærkvöldi 82-81 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Sigurinn var mikilvægur Hetti í baráttunni um bæði að forðast fall og komast í úrslitakeppni.

Nokkuð jafnt var í fyrsta leikhluta en rétt í blálok hans seig Höttur fram úr var yfir, 26-23, að honum loknum. Liðið byggði aðeins við forustuna í öðrum leikhluta og var yfir að honum loknum 47-43.

Hattarliðið lék frábærlega í þriðja leikhluta, kom í veg fyrir að KR skoraði fyrstu 6,5 mínúturnar og náðu tæplega 20 stiga forskoti, 62-43. Þá snérist taflið hins vegar við, KR skoraði 10 stig gegn tveimur þannig staðan eftir þriðja leikhluta var 66-53.

Höttur hélt áfram að reyna að stýra hraðanum í fjórða leikhluta, líkt og liðið hafði gert í þeim þriðja, með að spila langar sóknir. KR-ingar voru hins vegar farnir að hitta úr skotum sínum meðan þau geiguðu hjá Hetti.

Svo fór að KR jafnaði í 72-72 með að skora tíu stig röð þegar 2,5 mínútur voru eftir. Höttur svaraði með fjórum stigum í röð frá Bryan Alberts. KR-ingar voru komnir í þá stöðu að þurfa að brjóta á Hetti til að stöðva sóknir þeirra en heimamenn fengu í staðinn vítaskot sem þeir nýttu ágætlega.

Það kom þó ekki í veg fyrir að úrslitin yltu á lokasóknunum eftir að KR-ingar settu niður þriggja stiga skot í blálokin og minnkuðu muninn í 82-81. Höttur fór í sókn og missti boltann út af. KR fékk innkast með hálfa sekúndu eftir af leiktímanum en náði ekki að leggja upp í skot.

100% gegn KR

Það segir sitt um þróunina að Höttur hefur unnið alla leiki sína gegn KR í vetur, báða deildarleikina og viðureign í fjórðungsúrslitum bikarkeppninnar. KR-liðið virðist dæmt til að falla, neðst með aðeins fjögur stig.

Það fyrir ofan koma ÍR og Þór Þorlákshöfn, sem farin eru að reita inn stig eftir vonda byrjun, með tíu stig. Þorlákshafnarliðið á leik til góða í kvöld. Höttur er með tólf stig í níunda sæti, sem þýðir að liðið er enn í mikilli fallbaráttu. En það er heldur ekki langt í úrslitakeppnina því Stjarnan, Grindavík og Tindastóll eru öll með 14 stig og síðan Breiðablik með 16 stig.

Nemanja Knezevic var stigahæstur Hattar í gærkvöldi með 14 stig auk þess að taka tíu fráköst. Bryan Alberts setti 14 stig.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar