Körfubolti: Tuttugu stiga tap á Sauðárkróki

Höttur tapaði í gærkvöldi 109-88 fyrir Tindastóli á Sauðárkróki í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Höttur sá ekki til sólar í seinni hálfleik.

Höttur var ágætlega inni í leiknum framan af, eftir fyrsta leikhluta munaði þremur stigum, 28-25.

Snemma í öðrum leikhluta dró í sundur þegar Tindastóll breytti stöðunni úr 33-31 í 46-33. Höttur svaraði þá með níu stigum í röð áður en Tindastóll jók muninn á ný fyrir hálfleik í 56-45.

Tindastóll átti mikinn sprett fyrstu fimm mínúturnar í þriðja leikhluta. Þá var munurinn kominn í 20 stig, 73-51 og 82-65 eftir leikhlutann. Munurinn hélst í kringum 20 stig út leikinn og Sauðkræklingar unnu 109-88.

Sigtryggur Arnar Björnsson átti trúlega leik lífs síns fyrir heimamenn, setti niður 32 stig þar af 6/10 úr þriggja stiga og 6/7 úr teignum. Tindastóll skoraði 20 stig gegn 5 úr hraðaupphlaupum og hafði betur 30-20 í fráköstum. Þar munaði um sóknarfráköstin sem voru 14-4. Hjá Hetti varð Bryan Alberts stigahæstur með 20 stig.

Um var að ræða leik sem frestað var um mánaðamótin vegna veðurs. Höttur mætir næst Stjörnunni syðra á föstudag en að þeim leik loknum tekur við landsleikjahlé fram í mars.

Eftir úrslit síðustu leikja hefur Höttur færst niður í 10. sæti með 12 stig eins og Þór Þorlákshöfn en lakara hlutfall í innbyrðis viðureignum. Þar fyrir neðan er ÍR í fallsæti með 10 stig en Grindavík og Stjarnan næst fyrir ofan með 14 stig í sætum sem gefa þátttökurétt í úrslitakeppni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.