Körfubolti: Tuttugu stiga tap á Sauðárkróki
Höttur tapaði í gærkvöldi 109-88 fyrir Tindastóli á Sauðárkróki í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Höttur sá ekki til sólar í seinni hálfleik.Höttur var ágætlega inni í leiknum framan af, eftir fyrsta leikhluta munaði þremur stigum, 28-25.
Snemma í öðrum leikhluta dró í sundur þegar Tindastóll breytti stöðunni úr 33-31 í 46-33. Höttur svaraði þá með níu stigum í röð áður en Tindastóll jók muninn á ný fyrir hálfleik í 56-45.
Tindastóll átti mikinn sprett fyrstu fimm mínúturnar í þriðja leikhluta. Þá var munurinn kominn í 20 stig, 73-51 og 82-65 eftir leikhlutann. Munurinn hélst í kringum 20 stig út leikinn og Sauðkræklingar unnu 109-88.
Sigtryggur Arnar Björnsson átti trúlega leik lífs síns fyrir heimamenn, setti niður 32 stig þar af 6/10 úr þriggja stiga og 6/7 úr teignum. Tindastóll skoraði 20 stig gegn 5 úr hraðaupphlaupum og hafði betur 30-20 í fráköstum. Þar munaði um sóknarfráköstin sem voru 14-4. Hjá Hetti varð Bryan Alberts stigahæstur með 20 stig.
Um var að ræða leik sem frestað var um mánaðamótin vegna veðurs. Höttur mætir næst Stjörnunni syðra á föstudag en að þeim leik loknum tekur við landsleikjahlé fram í mars.
Eftir úrslit síðustu leikja hefur Höttur færst niður í 10. sæti með 12 stig eins og Þór Þorlákshöfn en lakara hlutfall í innbyrðis viðureignum. Þar fyrir neðan er ÍR í fallsæti með 10 stig en Grindavík og Stjarnan næst fyrir ofan með 14 stig í sætum sem gefa þátttökurétt í úrslitakeppni.