Körfubolti: Höttur áfram á sigurbraut

Höttur heldur áfram forskoti sínu á toppi fyrstu deildar karla í körfuknattleik eftir leikina helgarinnar. Höttur lagði Hamar í Hveragerði í gær 98-104 og FSu á Egilsstöðum á fimmtudag 94-73.


Höttur var skrefinu á undan nær allan leikinn í gær en munurinn var mjög lítill í síðasta leikhluta. Höttur tók leikhlé þegar þrjár mínútur voru eftir og staðan 89-90. Leikhléið skilaði sókn þar sem Hreinn Gunnar Birgisson skoraði þriggja stiga körfu, aðra af tveimur körfum sínum í leiknum.

Hamar minnkaði muninn aftur í 91-93 en körfur frá Ragnari Geraldi Albertssyni reyndust mikilvægar í lokin. Hann var líka sá sem helst gat gengið út í skotmenn Hamars en þeir Aaron Moss, Sigmar Hákonarson og Hreinn Gunnar Birgisson spiluðu allir síðasta leikhlutann á fjórum villum.

Mirko Virijevic átti stórleik, skoraði 36 stig og tók 10 fráköst. Moss skoraði 34 stig og tók 12 fráköst.

Moss náði hins vegar enn einni þrennunni á fimmtudagskvöldið gegn FSu, skoraði þá 30 stig, tók 17 fráköst og sendi 10 stoðsendingar. Ragnar Gerald skoraði 31 stig í þeim leik. FSu var yfir í fyrsta leikhluta en var eftir hann kafsiglt af Hetti.

Höttur er með fjögurra stiga forskot á Fjölni og átta stig á Val á toppi deildarinnar. Valur á tvo leiki til góða á Hött. Samkvæmt dagskrá mætast liðin á Egilsstöðum eftir slétta viku en fyrst er bikarúrslitahelgi hjá Val.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.