Mótanefnd skoðar erindi austfirsku liðanna
Næstu skref um framtíð Íslandsmótsins í knattspyrnu virðast í höndum mótanefndar sambandsins. Framkvæmdastjóri sambandsins ítrekar að svigrúm sé í reglugerð til að láta mótið standa til 1. desember.Austurfrétt hefur í vikunni greint frá mismunandi afstöðu austfirskra liða til þess hvort halda eigi áfram keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Höttur/Huginn, Einherji og Fjarðabyggð sendu í vikunni sameiginlegt erindi til KSÍ þar sem hvatt er til þess að mótið verði blásið af. Þá hefur Austurfrétt heimildir fyrir að fleiri félög hafi sent sambærileg erindi.
Knattspyrnuvefurinn 433.is greindi í hádeginu frá því að níu lið, þar á meðal Leiknir Fáskrúðsfirði, hefðu sent sambandinu erindi þar sem hvatt er til þess að reynt verði til hins ýtrasta að leika þá leiki sem eftir eru.
Augljóst er að staða félaga í deildum ræður miklu um afstöðu þeirra. Þau lið sem geta komist upp um deild eða bjargað sér frá falli með hagstæðum úrslitum vilja að mótið haldi áfram en þau lið sem hafa hag af óbreyttri stöðu, hvort það varðar deildarstöðu eða fjárhag, vilja að hætt verði.
Misformleg erindi
Í svari Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, við fyrirspurn Austurfréttar staðfestir hún að sambandinu hafi borist „nokkur erindi“ frá aðildarfélögum um framhald mótamála.
Þar segir að erindi séu misformleg og ekki alltaf ljóst hvort þau séu send í umboði félags eða eingöngu skoðun sendanda. Þá komi ekki alltaf fram ákveðin skoðun um hvort eigi að hætta eða ekki, heldur sé verið að varpa fram ýmsum sjónarmiðum. Mótanefnd sambandsins fær erindin til skoðunar.
Ekki kemur fram í svarinu hvaða sjónarmiðum er helst haldið á lofti. Í samtölum Austurfréttar við forsvarsmenn liðanna hafa þau lið, sem vilja hætta keppni, bent á atriði eins og að þau hafi ekki efni á að halda leikmönnum lengur, eða samkeppnisstaðan sé orðin skekkt vegna þess að önnur lið hafi sent erlenda leikmenn heim.
Landsbyggðarliðin benda einnig á aðvaranir um ferðir milli landshluta vegna smithættu og ef ekki verður hægt að hefja keppni fyrr en í nóvember verði grasvellir vart lengur leikhæfir. Liðin sem vilja halda áfram keppni vísa helst til þess að úrslitin eigi að ráðast á vellinum.
Tími til 1. desember
Samkvæmt reglugerð sem KSÍ gaf út í sumar er heimilt að hætta keppni sé búið að spila 2/3 hluta leika, líkt og nú er, en úrslitin ráðast þá af meðaltali stiga í hverjum leik. Í svari sínu bendir Klara á að í reglugerðinni sé miðað við öllum leikjum verði lokið fyrir 1. desember.
Heilbrigðisráðherra sagði í samvali við Vísi að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að í nýrri reglugerð yrðu tilmæli sóttvarnalæknis, um að íþróttir með snertingu séu ekki stundaðar á höfuðborgarsvæðinu, gerð að reglum. Þær verði væntanlega gefnar út á morgun. Þegar þær liggja fyrir má vænta þess að mótanefnd KSÍ setjist yfir málin.